Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Engar úrbætur á geðdeildum í 80 milljarða framkvæmd LSH

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Þröngir gangar, reykingalykt, mikill fjöldi tvíbýla, gegndræpir gluggar og takmarkað aðgengi að útisvæði eru lýsingar sérnámslækna í geðlækningum um húsnæðiskost geðdeilda Landspítalans. Húsin eru sum að verða hundrað ára og er geðsviðið algjörlega undanskilið í framkvæmdum við nýjan Landspítala. Sérnámslæknir í geðlækningum segir nýja geðdeild einu lausnina til að þjónustan geti samræmst nútímakröfum.

Félags íslenskra sérnámslækna í geðlækningum bendir á alvarlegan og viðvarandi húsnæðisvanda geðsviðs Landspítalans í ályktun sem er sett fram sérstaklega í ljósi þess að nú standa yfir framkvæmdir við nýjan Landspítala, sem kostar um 80 milljarða króna. Stærsti bitinn er nýr meðferðarkjarni sem á að auka hagkvæmni, nútímavæða vinnuumhverfið og samnýta aðstöðu þvert á stofnanir. Og svo eru að koma kosningar. Sérnámslæknarnir segja það vekja mikla furðu að í nýjum meðferðarkjarna sé ekki gert ráð fyrir nýrri geðdeild.

Nútímahúsnæði á geðsviði spítalans er bara hreint út sagt slitið og úrelt og það stenst ekki nútímakröfur sem gerðar eru í okkar samfélagi. Og bara styður ekki við þá hugmyndafræði sem er ríkjandi í geðheilbrigðisþjónustu í dag. Þess vegna kemur þetta bara mjög á óvart. Og er bara mjög miður. Aðallega fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra og auðvitað starfsfólkið. 
- Oddný Ómarsdóttir, stjórnarkona í félagi sérnámslækna í geðlækningum. 

Reykingalykt, þröngir gangar og lekir gluggar

Oddný undirstrikar að óboðlegt húsnæði geðsviðsins hafi verið í umræðunni í mörg ár, enda löngu úrelt. Kleppur var byggður 1907 og geðdeildin við Hringbraut 1974. Húsin hafa fengið litlar sem engar úrbætur í gegn um árin. Þau einkennast af þröngum göngum, gráum steinveggjum, óheyrilegum fjölda tvíbýla, gegndræpum gluggum, afar takmörkuðu aðgengi að útisvæði og reykingarlykt þegar gengið er fram hjá reykherbergjum sem virðast öll skorta viðunandi loftræstingu, segir í ályktuninni. „Þegar gengið er inn í húsnæði geðsviðs á Hringbraut er andrúmsloftið því miður enn sterklega litað af árinu 1974,” segir í ályktuninni. Oddný segir smá fjármagn og plástra hér og þar, ekki duga til lengur.  

„Einstaklingur leggst inn og honum er boðið kannski tvíbýli og jafnvel ekki aðgengi að útisvæði. Það er bara mjög margt sem þarf að bæta, en við gerum það ekki með því að plástra núverandi byggingar. Það þarf bara nýja byggingu fyrir geðþjónustuna sem stenst nútímakröfur.” 

Orðum fylgja ekki gjörðir

Sérnámslæknarnir benda á að undanfarin ár hafi þingmenn keppst um að leggja áherslu á geðheilbrigðismál og mikilvægi geðheilsu. Hins vegar endurspegli aðstaða á geðdeildum Landspítalans alls ekki þá mikilvægu afstöðu.