Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Úrhellisrigning og flóð valda usla á Spáni

02.09.2021 - 01:45
Erlent · Hamfarir · Náttúra · Flóð · Katalónía · Madrid · Pedro Sanchez · Rigning · samgöngur · Spánn · úrhelli · Umhverfismál · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Gríðarlegt úrhelli olli flóðum á Spáni í dag, þúsundir voru án rafmagns auk þess sem loka þurfti vegum og járnbrautarlínum. Símasamband var einnig að skornum skammti.

Ástandið var einkum alvarlegt í strandbænum Alcanar í norðausturhluta Katalóníu. Vatn flæddi um götur og stræti í bænum og hreif með sér bíla, útihúsgögn og tré sem bárust með flaumnum til strandar.

Tugum var bjargað frá heimilum sínum, úr bílum og frá tjaldsvæðum í nágrenninu. Í tilkynningu björgunarsveita kemur fram að ríflega tugur manna hafist við í skjóli á íþróttaleikvangi og að á þriðja tug hefði verið fluttur á hótel.

Nokkrir voru fluttir á sjúkrahús með væg einkenni ofkælingar en engin hefur farist í flóðunum.

Mjög rigndi einnig og flæddi á mið-Spáni sem varð til þess að áætlunarferðir háhraðalestar milli höfuðborgarinnar Madridar og borgarinnar Toledo röskuðust.

Búist er við að áfram rigni í nótt og því hvetur Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, almenning til að gæta einstakrar varkárni og fylgja ráðum viðbragðsaðila.