Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólíklegt að konur verði ráðherrar í Afganistan

epaselect epa09440847 A child sits on a bus with other people evacuated from Afghanistan after arriving at Washington Dulles International Airport in Chantilly, Virginia, USA, 01 September 2021. The last military flight took off from Kabul airport completing the US evacuation from Afghanistan and ending America's longest war after almost twenty years.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Háttsettur embættismaður Talibana segir ólíklegt að konur verði meðal æðstu ráðamanna í nýrri ríkisstjórn þeirra í Afganistan. Það segir fréttaskýrandi BBC að sé í mótsögn við orð Talibana fyrir örfáum árum.

Sher Abbas Stanekza næst æðsti ráðamaður stjórnmálaskrifstofu Talibana í Katar segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að konur muni halda áfram að sinna sínum störfum og þeim verði heimilað að starfa á lægri stigum stjórnsýslunnar.

Svipað virðist uppi á teningnum varðandi ýmsa minnihlutahópa í landinu. Sömuleiðis segir Sher Abbas Stanekza að fólk sem sat í stjórn undanfarna tvo áratugi verði ekki hluti hinnar nýju ríkisstjórnar.

Í fréttaskýringu fréttamannsins Lyse Doucet á vef BBC segir að Talibanar telji sig hafa fullt umboð til að setja íslamskt ríki á laggirnar. Í slíku kerfi leiki konur aukahlutverk.

Það sé þó í mótsögn við það sem Talibanar sögðu fyrir tveimur árum þegar þeir hófu viðræður við afgönsk stjórnvöld. Þá kváðu þeir konur geta gegnt hvaða hlutverki sem er innan íslamskrar ríkisstjórnar að forsetaembætti og embætti forsætisráðherra undanskildu.

Konur gætu orðið forstjórar og ráðherrar í ríkisstjórn. Nú virðist sem Talibanar séu hættir við allt slíkt enda hafa þeir öll völd í Afganistan núna.  

Enn er nokkuð á huldu um samsetningu nýrrar ríkisstjórnar Afganistan sem búist er við að taki við á næstu næstu dögum og hverju hún breytir fyrir daglegt líf landsmanna.