Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðarástandi lýst yfir á landamærum Póllands

epa09438852 Polish President Andrzej Duda attends 41st anniversary observations of the signing of the August Agreements in Arcelor Mittal Sp. z o.o. Huta Warszawa, in Warsaw, Poland, 31 August 2021. The August Agreements were reached after workers’ strikes in Gdansk, Poland, in August 1980, demanding the right to create independent trade unions among 21 demands.  EPA-EFE/Wojciech Olkusnik POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Andrzej Duda, forseti Póllands, staðfesti í dag tilskipun um neyðarástand á landamærunum við Hvíta-Rússland vegna straums farandfólks og flóttamanna, en þúsundir hafa komið þaðan á undanförnum mánuðum. Flest er fólkið frá Mið-Austurlöndum.

Hefndaraðgerðir Lúkasjenkós

Grannríki Hvíta-Rússlands telja að Alexander Lúkasjenkó forseti hafi vísvitandi greitt leið þess að landamærum ríkjanna í hefndarskyni fyrir refsiaðgerðir Evrópusambandsins og gagnrýni grannríkjanna á stjórnarhætti Lúkasjenkós og svindl í forsetakosningum í fyrra. Andrzej Duda hefur sagt að nauðsynlegt sé að styrkja landamæragæslu.

Búast við auknum straumi flóttafólks

Andrzej Duda sagði að auk þess mætti búast við flóttamannastraumi frá Afganistan. Pólverjar hafa sent 2000 hermenn að landamærunum við Hvíta-Rússland til að efla gæslu. Neyðarástandið þýðir að engum er heimilt að ferðast um landamærahéruð öðrum en íbúum þeirra. Varnarmálaráðherra Póllands sagði í ágúst að reisa ætti tveggja og hálfs metra háa girðingu meðfram endilöngum landamærunum sem eru rúmlega 400 kílómetrar. 

Grannríkin reið Hvít-Rússum

Forsætisráðherrar Eistlands, Lettlands, Litáen og Póllands fullyrtu í sameiginlegri yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum að stjórn Lúkasjenkós sendi flóttamenn skipulega yfir landamærin og líktu þessu við árás á Evrópusambandsríkin. Flóttafólkið er einkum frá Miðausturlöndum en eftir að Litháen tók að vísa þeim á brott í ágústbyrjun jókst þunginn á Lettland og Pólland. Ekkert landanna leyfir flóttafólkinu að sækja um hæli.