Kallar eftir samfélagssáttmála um fjölmiðla

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Kallar eftir samfélagssáttmála um fjölmiðla

02.09.2021 - 15:49

Höfundar

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, trúir því að staða fjölmiðla geti ekki versnað á Íslandi. „Ég held að við séum komin á botninn.“ Hún segir að framtíð fjölmiðla hér á landi sé engin án ríkisstyrkja.

„Ég trúi því að í ljósi umræðunnar undanfarna vikur og mánuði, að stjórnmálaflokkar geri sér grein fyrir því að þetta er í rauninni bara spurning um það hvort þú viljir fjölmiðla sem eru ríkisstyrktir eða enga fjölmiðla. Við erum komin þangað,“ segir Sigríður Dögg  í samtali við Þröst Helgason í Svona er þetta á Rás 1. Sigríður Dögg, sem á að baki langan feril í blaðamennsku, varð formaður Blaðamannafélags Íslands fyrr á þessu ári og er nú fréttamaður á Ríkisútvarpinu.

„Eitt af því sem við þurfum að ræða af meiri alvöru er hversu miklu fjármagni ríkið verji til styrktar íslenskum fjölmiðlum,“ segir hún. „Þetta er ekki lengur spurning um hvort, heldur hve mikið.“

Mikilvægt skref hafi verið tekið þegar Alþingi ákvað að styrkja fjölmiðla. „Við brutum með því blað í pólitíkinni gagnvart fjölmiðlunum. Ísland er eina ríkið nánast á Norðurlöndum sem fær ekki ríkisstyrki að undanskildu RÚV. Þetta var mjög stórt pólitískt skref sem var stigið síðasta vetur þegar það var samþykkt að veita þessa styrki, þó samþykktin fyrir þeim myndi bara gilda í ár.“

Hún segir að enginn fótur sé fyrir því að vegið verði að sjálfstæði fjölmiðla með því að styrkja þá með þessum hætti. „Um leið og þú útskýrir fyrir fólki að RÚV er miðill sem er 100% ríkisstyrktur og þar er sú fréttastofa sem veitir stjórnvöldum mest aðhald. Það hefur sýnt sig í fjölmiðlaumræðu síðustu ára.“

Sigríður Dögg vill halda því fram að það skipti ekki máli hver á fjölmiðlana og hvaðan styrkirnir koma. „Vegna þess að fjölmiðlafólk vinnur samkvæmt gildum sem ríkja í stéttinni og þeim heilindum sem þar gilda. Því án trausts og trúverðugleika þá ertu ekki neitt, hvorki sem blaðamaður né fjölmiðill. Þannig að ég sé fyrir mér að við séum að fara að skattleggja þessa tæknirisa og þeir peningar renni beint, óskertir, inn í íslenska fjölmiðlalandslagið, til einkarekinna miðla fyrst og fremst.“

Þörf sé á víðtækri sátt um að hér þrífist öflugir fjölmiðlar. „Við þurfum að gera þennan samfélagssáttmála um að hér viljum við tryggja að séu óháðir sterkir fjölmiðlar.“

Þröstur Helgason ræddi við Sigríði Dögg Auðunsdóttur í Svona er þetta á Rás 1. Hlusta má á þáttinn í heild í spilara RÚV.

 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Norræn ríki í fremstu röð en Ísland eftirbátur þeirra

Stjórnmál

RSÍ fordæmir aðför Samherja að æru og málfrelsi

Sjávarútvegsmál

Samherjafólk reyndi að hafa áhrif á Blaðamannafélagið

Innlent

Sigríður Dögg kjörin formaður Blaðamannafélags Íslands