Herra Hnetusmjör ásamt Flóna og Birnir ásamt Aroni Can

Mynd: Kælan Mikla / Kælan Mikla

Herra Hnetusmjör ásamt Flóna og Birnir ásamt Aroni Can

02.09.2021 - 15:00

Höfundar

Hamraborgarprinsinn Herra Hnetusmjör sendi frá sér nýja plötu síðastliðinn þriðjudag sem verður að teljast til tíðinda. Auk þess er boðið upp á nýtt og nýlegt efni frá Birni ásamt Aroni Can, Kælunni miklu, Heró, Hipsumhaps, Omotrack, Krömpum og Daníel Hjálmtýssyni í Undiröldunni að þessu sinni.

Herra Hnetusmjör ásamt Flóna – Töluvert meir

Platan Flottur strákur 2 er átta laga þröngskífa og sjálfstætt framhald af plötu Hnetusmjörsins - Flottur strákur frá árinu 2015, sem var hans fyrsta. Hljómur plötunnar bendir til þess að Hnetusmjörið sé að færa sig í átt að rappi aftur, frá poppinu, og meðal gesta eru Flóni og Joe Frazier .


Birnir ásamt Aron Can – F.C.K.

Um miðjan júlí kom út lagið F.C.K. með Birni þar sem hann nýtur liðsinnis Arons Can. Lagið kom í kjölfar slagarans Spurningar þar sem Páll Óskar var með stórleik og hefur verið nokkuð vinsælt á Spotify en Þormóður pródúseraði lagið.


Kælan mikla – Ósýnileg

Hljómsveitin Kælan mikla var stofnuð. Hún sendi frá sér Glimmer og ösku 2014, Kælan mikla kom síðan 2016, Mánadans árið 2017 og síðan var það Nótt eftir nótt sem kom út árið 2018. Nú er komin út önnur smáskífa af fjórðu plötu Kælunnar í fullri lengd sem er lagið Ósýnileg. Platan hefur fengið nafnið Undir köldum norðurljósum og kemur út í október.


Hipsumhaps – Meikaða

Fyrir nokkrum vikum var heljarinnar stapp í kringum plötu Hipsumhaps, Lög síns tíma, en nú er hún nú aftur komin á streymisveitur og Fannar Ingi getur sent frá sér nýjan söngul. Lagið sem varð fyrir valinu er lagið Meikaða sem er um að meikaða.


Heró – Stay For Me

Heró er íslenskur dúett skipaður Helenu Hafsteinsdóttur og Rósu Björk Ásmundsdóttur. Þær eiga það sameiginlegt að hafa búið í Bandaríkjunum og orðið fyrir áhrifum tónlistar þar eins og heyrist í lagi þeirra Stay For Me, sem er funk-popplag innblásið af tónlistarfólkinu Dua Lipa og Charlie Puth.


Omotrack – Darker Blue

Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Omotrack-bræðra Markúsar og Birkis Bjarnasona, Thanks for dropping by, kom út í lok júli. En platan er sérstök að þeirra sögn fyrir það að hvert einasta lag af henni mun koma út í tveimur útgáfum.


Krampar – F.Y.M.

Krampar eru fjögurra manna rokkhljómsveit skipuð söng- og gítarleikaranum Magnúsi Þór Magnússsyni, gítarleikaranum Luis Diogo, bassaleikaranum Oddi Sigmundssyni og trommuleikaranum Svanbergi Þór Sigurðssyni. Sveitin sendir nú frá sér lagið F.Y.M. sem er annað útgefna lag Krampa, en það fyrsta, Death Is Not Scary, Dying Is, fékk þónokkra útvarpsspilun.


Daníel Hjálmtýsson – Back To Bed

Daníel vinnur nú ásamt hljómsveit að fyrstu breiðskífu sinni sem er væntanleg á næsta ári. Lagið Back to Bed verður á henni en það er lag sem varð til við píanóið sem ballaða í anda Sufjan Stevens snemma árs 2020 en breyttist í eitthvað annað og stærra með aðkomu meðlima hljómsveitar Daníels þeirra Hálfdánar, Skúla og Garðars.