Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ABBA-ævintýrið heldur áfram í dag

LON07 - 19990323 - LONDON, UNITED KINGDOM : ***PLEASE PASS TO DPA***
ATTENTION DPA MR HEUSE
ABBA STORY EBELING -
EPA PHOTO EPA/-/AD-cl SPCL FOR DPA
 Mynd: EPA

ABBA-ævintýrið heldur áfram í dag

02.09.2021 - 03:27

Höfundar

Sænska popphljómsveitin ABBA segir í tilkynningu að laust fyrir klukkan fimm í dag, fimmtudaginn 2. september, megi heimsbyggðin eiga von á sögulegri yfirlýsingu.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað til stendur en búist er við að hljómsveitin kynni útgáfu nýrra laga, þeirra fyrstu frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Eins hefur verið talað um nýtt leikverk þar sem þau koma fram í líki heilmynda, „Abbatar“ eins og þau kalla það.

Fyrir þremur árum tilkynnti sveitin að hún væri á leið í hljóðver að taka upp ný lög. Það þóttu stórtíðindi enda hefur ABBA ætíð staðfastlega hafnað boðum um að koma fram saman frá því að sveitin hætti störfum árið 1982. 

ABBA var gríðarlega vinsæl allt frá því að hún sigraði í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1974. Sigurlagið Waterloo varð fljótt á allra vörum og hið sama á við um fjölda stórsmella í tæpan áratug á eftir.

Alls hefur ABBA selt meira en 400 milljónir eintaka af plötum sínum undanfarin 50 ár. Í síðustu viku birti sveitin skilaboð á Twitter þar sem aðdáendum var þökkuð biðin og að ferðalagið væri rétt að hefjast.

Anni-Frid Lyngstad, Agnetha Fältskog, Björn Ulvaeus og Benny Andersson eru öll á áttræðisaldri en virðast algerlega einhuga um að gaman sé að gefa út nýtt efni núna.

Björn sagði árið 2008 að þau hefðu engan áhuga á að koma saman að nýju, peningar skiptu ekki máli og þau vildu að aðdáendur minntust þeirra eins og þau voru forðum.

ABBA hefur snúist hugur og AFP-fréttastofan vitnar í breska götublaðið The Sun sem fullyrðir að átta ný lög séu væntanleg og sýning í kjölfarið sem eigi að nefnast ABBA Voyage.