Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

WHO fylgist grannt með nýlegu afbrigði kórónuveirunnar

epa09437848 A health worker wearing personal protective equipment (PPE) collects swab samples for coronavirus (COVID-19 disease) testing in Hanoi, Vietnam, 31 August 2021.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) fylgist nú grannt með stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar sem fyrst varð vart í Suður-Ameríkulandinu Kólumbíu í janúar síðastliðnum. Afbrigðið er skráð sem my eða emm í gríska stafrófinu og óttast er að það hafi nokkra mótstöðu gegn bóluefnum.

Vísindalegt heiti My-afbrigðisins er B.1.621 og rannsóknir standa enn yfir á eðli þess og hegðan.

Í vikulegri fréttatilkynningu heilbrigðisstofnunarinnar segir þó að grunur sé uppi um að afbrigðið hafi sterka mótstöðu við bóluefnum. Þó leggur stofnunin ríka áherslu á að frekari rannsókna á því sé þörf.

Fjögur afbrigði veirunnar SARS-CoV-2  sem veldur COVID-19 eru skráð sem áhyggjuefni, þeirra á meðal Alfa sem þekkt er í 193 löndum og Delta sem þekkt eru í 170. My er meðal fimm afbrigða sem grannt er fylgst með. 

Frá því að afbrigðisins varð vart í Kólumbíu hefur það greinst í öðrum löndum Suður-Ameríku og í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum WHO er heildarútbreiðsla þess um 0,1% greindra tilfella um 39% í Kólumbíu.

Allar veirur stökkbreyttast með tímanum án þess að það hafi áhrif á eiginleika þeirra. Þó eru til þær stökkbreytingar sem breyta eiginleikum veira og geta þannig haft áhrif á hvernig þær smitast milli manna, hve alvarlega veikt fólk verður og mótstöðu veiranna við bóluefnum og lyfjum.