„Mér finnst frábært að sjá stemninguna hérna núna þegar við höfum opnað að nýju. Gestir fá að koma og starfsfólk mætir til vinnu og þarf ekki lengur að sitja heima á sófanum. Þetta er góður dagur,“ sagði Lars Borsting, eigandi skemmtistaðar í Kaupmannahöfn í nótt.
„Ég hef beðið eftir þessu í langan tíma,“ sagði einn gestanna við Danska ríkisútvarpið, en þeir þurftu að framvísa bólusetningarvottorðum til komast inn á staðina.
Frá og með deginum í dag þarf hins vegar ekki lengur að framvísa bólusetningarvottorði, sem sýnir fram á bólusetningu, fyrri sýkingu eða nýlegt neikvætt PCR-próf, til að fá aðgang að veitinga- og kaffihúsum, líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslustofum og að ýmsum viðburðum og opinberum rýmum.
Öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt í Danmörku tíunda september. Dönsk stjórnvöld hafa sagt að COVID-19 sé ekki lengur sjúkdómur sem samfélaginu standi ógn af og að traust stjórn danskra heilbrigðisyfirvalda geri þetta mögulegt.