Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skemmtistaðir opnaðir að nýju í Danmörku

01.09.2021 - 17:14
Mynd: DR / DR
Skemmtistaðir voru opnaðir að nýju í Danmörku á miðnætti eftir að hafa verið lokaðir í um eitt og hálft ár vegna kórónuveirufaraldursins. Öllum takmörkunum verður aflétt þar 10. september.

„Mér finnst frábært að sjá stemninguna hérna núna þegar við höfum opnað að nýju. Gestir fá að koma og starfsfólk mætir til vinnu og þarf ekki lengur að sitja heima á sófanum. Þetta er góður dagur,“ sagði Lars Borsting, eigandi skemmtistaðar í Kaupmannahöfn í nótt.

„Ég hef beðið eftir þessu í langan tíma,“ sagði einn gestanna við Danska ríkisútvarpið, en þeir þurftu að framvísa bólusetningarvottorðum til komast inn á staðina.

Frá og með deginum í dag þarf hins vegar ekki lengur að framvísa bólusetningarvottorði, sem sýnir fram á bólusetningu, fyrri sýkingu eða nýlegt neikvætt PCR-próf, til að fá aðgang að veitinga- og kaffihúsum, líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslustofum og að ýmsum viðburðum og opinberum rýmum. 

Öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verður aflétt í Danmörku tíunda september. Dönsk stjórnvöld hafa sagt að COVID-19 sé ekki lengur sjúkdómur sem samfélaginu standi ógn af og að traust stjórn danskra heilbrigðisyfirvalda geri þetta mögulegt.