Bríet forðast fólk sem brýtur hana niður

Mynd: RÚV / RÚV

Bríet forðast fólk sem brýtur hana niður

01.09.2021 - 14:46

Höfundar

„Það er ekki neinn annar sem getur gert þig vinsæla nema fólkið sem hlustar á þig, svo það er þeim að þakka,“ segir tónlistarkonan Bríet um ótrúlega velgengni sem hún hefur notið síðasta árið. Hún einbeitir sér að aðdáendum sínum og uppbyggilegum orðum þeirra, en hlustar ekki á þá sem gagnrýna hana ómálefnalega.

Tónlistarkonan Bríet varð á augabragði ein skærasta stjarnan í íslensku tónlistarlífi eftir að hún sendi frá sér plötu sína Kveðja, Bríet fyrir ári síðan. Síðan hefur hún haft nóg að gera og tekur hún meðal annars lagið í glænýrri uppsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Rómeó og Júlíu sem frumsýnd verður í Þjóðleikhúsinu um helgina. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir frumlega lagasmíð, fallega rödd og persónulega texta. Aðdáendahópurinn er stór og breiður og kveðst Bríet standa í þakkarskuld við hann. Hún verður í viðtali í við Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur í þættinum Með okkar augum sem er á dagskrá á RÚV í kvöld.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinunn Ása og Bríet ræða lífið og listina í þætti kvöldsins.

Velgengni sína þakkar hún nefnilega öllum þeim fjölda fólks sem hefur hlýtt á tónlist hennar og fylgst með henni. „Það er ekki neinn annar sem getur gert þig vinsæla nema fólkið sem hlustar á þig,“ segir Bríet. Hún er þakklát fyrir stuðninginn en eyðir ekki orku í að hlusta ekki á þá sem reyna að ýta henni niður. „Ég forðast neikvætt fólk og þá sem vilja ekki lyfta þér upp heldur brjóta þig niður,“ segir Bríet. Hún ber höfuð hátt og er alltaf trú sjálfri sér. „Ef þú ert að reyna að vera annar þá sér fólk í gegnum það,“ segir hún.

Innblásturinn fyrir listsköpun sína finnur Bríet víða. „Tónlistin verður til í daglegu lífi, í samtali, kaffi með mömmu, þegar ég hlusta á vindinn og heyri bátana rugga,“ segir hún um rómaða lagasmíðina.

Með okkar augum er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:25.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Bríet og Sturla Atlas frumflytja lag úr Rómeó og Júlíu

Tónlist

Bríet sveif um í mögnuðu atriði á tónlistarverðlaununum

Tónlist

Bríet hefði mátt vera orðljótari við kúrekann