Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Varar Talibana við því að hindra för flóttafólks

31.08.2021 - 18:00
epa06290466 NATO Secretary General Jens Stoltenberg gives a press conference following the meeting of the NATO-Russia Council at alliance headquarters in Brussels, Belgium, 26 October 2017.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins segir að þeir Afganar, sem ekki komust frá landi, séu ekki gleymdir. Hann varaði Talibana við því að hindra för flóttafólks frá landinu

Hersveitir Atlantshafsbandalagsins hafa yfirgefið Afganistan. Síðasta flugvél Bandaríkjahers flaug frá Hamid Karzai flugvellinum í Kabúl í nótt, hefur tæplega tuttugu ára hersetu því lokið. Baráttunni við herská öfl í Afganistan lauk á þann máta að aftur ráða Talibanar ríkjum í landinu, rétt eins og fyrir innrásina í október 2001.

Stoltenberg segir að baráttan hafi þó ekki verið til einskis, vera NATO í Afganistan hafi orðið til þess að hryðjuverkasamtök gátu ekki gert árásir á vestræn skotmörk frá Afganistan.

Framkvæmdastjórinn sagði það nauðsynlegt að alþjóðaflugvellinum í Kabúl yrði haldið opnum. Bæði til þess að koma hjálpargögnum til landsins og til að geta komið þeim, sem þess óska, frá landi. Hann sagðist geta fullvissað þá sem ekki komust frá landi að Atlantshafsbandalagið hafi ekki gleymt þeim. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur einnig sagt að flugvöllurinn þurfi að vera opinn.

Stoltenberg þakkaði Tyrkjum fyrir að hafa boðist til að aðstoða Talibana við störf á flugvellinum. Hann sagði að NATO ætlaði að tryggja að Talibanar stæðu ekki í vegi fyrir för flóttafólks frá landinu. Talibanar hafi þegar lofað því en verði ekki dæmdir af orðum heldur gjörðum.

Atlantshafsbandalagið þurfi að fara yfir ferlið í Afganistan og sjá hvað var gert vel og hvað hefði mátt fara betur á tuttugu ára veru herafla NATO í Afganistan.