Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sammála um mikilvægi loftslagsmála en ólíkar leiðir

31.08.2021 - 21:29
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Forystumenn flokkanna voru sammála um mikilvægi loftslagsmála en boðuðu ólíkar leiðir til að ná settu marki. Formaður Samfylkingarinnar sagði núverandi ríkisstjórnarflokka ósamstíga og formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins sagði loftlagsvána afleiðingu af valdi fyrirtækja yfir samfélaginu. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði Ísland geta orðið leiðandi í að skapa lausnir og búa til þekkingariðnað.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar,  sagði ríkisstjórnarflokkanna ósammála um aðgerðir og niðurstaðan væri lægsti samnefnari. Þær áskoranir sem íslenskt samfélag stæði frammi fyrir þyrfti samstíga ríkisstjórn. Stefna ætti að sextíu prósent samdrætti í losun fyrir 2050, fara í hröð orkuskipti og ráðast í uppbyggingu almenningssamgangna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG,  sagði núverandi ríkisstjórn vera þá fyrstu til að koma með alvöru aðgerðir gegn loftslagsvánni. En það þyrfti að ganga lengra.  Tryggja yrði að Ísland væri orðið óháð jarðefnaeldsneyti 2045 og kolefnishlutleysi fyrir 2040.  Ríkisstjórnin hefði ráðist í stórfelldar breytingar, meðal annars með því að fjárfesta í almenningssamgöngum með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði tækifærin til staðar. Heimurinn væri að æpa á lausnir og Ísland hefði margt fram að færa, „snillinga sem hafa verið að flytja út þekkingu.“ Til staðar væri óvirkjað afl sem ætti eftir að nýta og vindorka væri valkostur sem skoða þyrfti af alvöru. Ef hlutirnir væru gerðir rétt gæti Ísland orðið leiðandi  í að skapa lausnir og búa til þekkingariðnað.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins,  sagði kjarnann í stefnu fólksins vera að þeir sem menguðu mest ættu að borga mest. Hún velti því líka fyrir sér hvernig ríkisstjórnin ætlaði að aðstoða láglaunafólk við að eignast skemmtiferðabíl og spurði hvort það ætti kannski bara troða því í strætó eða upp á reiðhjól. Ekki mætti leggja græna skatta á þá sem minnst hefðu milli handanna og taka á því að skemmtiferðaskipin væru að spúa hér svartolíu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, oddviti Pírata í SV-kjördæmi,  sagði stóriðjuna á Íslandi nota 80 prósent af allri orku og það væri bara spurning hvenær eitthvað af álverunum færi. Öll áhersla hefði verið lögð á mengandi stóriðju en ekki bregðast við loftslagsmálum.  Píratar boðuðu róttækar aðgerðir strax þar sem ekki yrði prúttað við móður jörð eða ESB um lægri útblástur. 

Glúmur Baldvinsson, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Reykjavíkur suður,  sagðist vera hundleiður á þessari dómadagsspá. Sjálfur hefði hann alist upp við kjarnorkuvá og verið kvíðinn. „Við þurfum bara að standa við okkar skuldbindingar, samkvæmt Parísar-samkomulaginu.“ Ríkið ætti að taka af skarið, til að mynda með störfum án staðsetningar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins,  sagði ríkisstjórnina vera að nálgast þennan málaflokk á rangan hátt. Milljörðum væri ausið út í loftið með ómarkvissum aðgerðum.  Það þyrfti fjölbreyttari framleiðslu og íslensku álverin væru að gera gríðarlega mikið gagn. „Við getum nýtt orkuna betur, framleitt umhverfisvænt eldsneyti og flutt út.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar,  sagði að taka þyrfti stærri skref  útúr meðalmennskunni. Setja þyrfti aðgerðaráætlun sem væri eins og svipa á stjórnvöld. Atvinnulífið væri lykilatriði og hún var sammála þeirri skoðun að þeir sem menguðu ættu að borga. Taka ætti loftslagsmálin sömu tökum og jafnréttismálin, flétta þau inn í allt.

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins,  sagði stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa kveikt á því að hægt yrði að nota ríkissjóð til að styrkja fyrirtækin. Loftslagsváin væri afleiðing af valdi fyrirtækjanna yfir samfélaginu.  Ekki væri hægt að leysa þann vanda með þetta sama fólk við stýrið. Hann sagði jafnframt undarlegt að ríkt fólk væri styrkt til að kaupa sér dýran rafmagnsjeppa á meðan fátæka fólkið fengi enga styrki og sæti eftir í gömlu bílunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það þyrfti að vinna sig út úr þessu með því að treysta á hugvitið en vera með minna af boðum og bönnum. Staðan hér væri góð til að hraða orkuskiptum. „Við verðum ekki sú þjóð sem finnur upp hvaða orka er best en við ætlum að vera tilbúin.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV