Nýtt frá Nýdanskri, Kælunni miklu og Bigga Maus

Mynd: Nýdönsk / Ég kýs

Nýtt frá Nýdanskri, Kælunni miklu og Bigga Maus

31.08.2021 - 17:50

Höfundar

Sum af síðustu lögum sumarsins detta inn í Undiröldu kvöldsins þar sem Nýdönsk eru í kosningaham, Biggi í Maus biður fyrirgefningar en Kælan mikla syngur inn ný lægðarkerfi og hauststorma. Auk þeirra koma við sögu, Brek, Kef Lavík, Tendra, Magnús Jóhann Ragnarsson og Skúli Sverrisson.

Nýdönsk - Ég kýs

Hljómsveitin Nýdönsk var stofnuð á átttugasta og sjöunda ári tuttugustu aldar og hefur því starfað saman með mannabreytingum á þriðja áratug. Nú á 21 ári tuttugustu og fyrstu aldar senda þeir síðan frá sér lagið Ég kýs sem fylgir eftir vinsældum lagsins Örlagagarns sem kom út í fyrra .


Benni Hemm Hemm - Ísskápurinn

Nýjasta nýtt frá Benna Hemm Hemm er Ísskápurinn. Eins og alltaf þá skilar Benni af sér tónlist og texta sem hann að mestu leyti tekur upp og semur sjálfur en auk Benna leggja Ingi Garðar Erlendsson, Júlía Mogensen og Tumi Árnason hönd á plóg.


Brek - Ef þú ert mér hjá

Hljómsveitin Brek hefur sent frá sér útgáfu af lagi Magnúsar Eiríkssonar, Ef þú ert mér hjá. Að sögn sveitarinnar er ástæðan fyrir hljóðrituninni frábærar viðtökur við flutningi Breks á laginu á tónleikum.


Biggi Maus - Fyrirgefning

Flutningurinn til Akureyrar virðist hafa verið hressandi fyrir Bigga í Maus því nú sendir hann frá sér sitt fyrsta sólólag í 15 ár - en aðrir meðlimir Maus gáfu kappanum undirspilið í afmælisgjöf.


Kælan Mikla - Stormurinn

Þriðja smáskífan af fjórðu plötu Kælunnar Miklu, Undir Köldum Norðurljósum, sem kemur út í Október er lagið Stormurinn en lagið er eins og platan pródúseruð af manninum sem aldrei brosir Barða Jóhannssyni í Bang Gang.


Kef Lavík - Caliphone

Þeir Ármann Örn Friðriksson og Einar Birkir Bjarnason skipa sveitina Kef Lavík frá Höfn í Hornafirði og hafa sent frá sér breiðskífuna Eilífur snjór í augunum. Lögin Strobe og María hafa farið vel af stað en að þessu sinni heyrum við lagið Caliphone þar sem Hafdís Ýr lætur ljós sitt skína með gaurunum.


Tendra - Bird

Hljómsveitin Tendra hefur sent frá sér lagið Bird sem þau tóku upp í fyrra. Sveitin er skipuð þeim Mikael Mána Ásmundssyni, á kassagítar, rafgítar og rafbassa, Marínu Ósk Þórólfsdóttur sem syngur og Kristofer Rodriguez Svönussyni sem spilar á trommur og slagverk.


Magnús Jóhann Ragnarsson og Skúli Sverrisson - Án titils

Píanóleikarinn Magnús Jóhann og bassaleikarinn Skúli Sverrisson kynna til leiks „Án tillits“ en það er fyrsta lagið af væntanlegri samnefndri breiðskífu tvíeykisins. Breiðskífan kemur til með að innihalda 10 lög eftir Magnús í flutningi þeirra og er væntanleg síðar í haust.