Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

KSÍ: Þarf að hreinsa til áður en við höfum aftur gaman

Mynd: RUV / RUV

KSÍ: Þarf að hreinsa til áður en við höfum aftur gaman

31.08.2021 - 18:26
Stemningin á landsleiknum á fimmtudaginn verður þung og réttilega svo, segir Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA og stjórnarmaður í Íslenskum toppfótbolta.

Sævar var gestur Kastljóss ásamt Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur kynjafræðingi og forkonu jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, og Viðari Halldórssyni félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Hanna Björg vakti fyrst máls á því að pottur væri brotinn í afstöðu Knattspyrnusambands Íslands til kynferðisbrotamála í aðsendri grein á visir.is fyrr í þessum mánuði. Hún kvaðst hafa fengið margar ábendingar um kynferðisbrot innan knattspyrnuhreyfingarinnar eftir að greinin birtist.

"Líklega er ég með um 20 frásagnir af brotum, flestum kynferðislegs eðlis," sagði Hanna. "Hópnauðganir, nauðganir, kynferðisleg áreitni. Gerendurnir eru ekki allir landsliðsmenn heldur eru líka gerendur sem vinna í umboði KSÍ."

Sævar lagði áherslu á að þörf væri á því að skipta út fólki í forystu KSÍ.

"Það þarf að koma með ný gildi, það þarf að taka upp rekstur og ímynd KSÍ - þetta er allt farið út um gluggann í dag. Það þarf nýtt fólk til að taka á þessum málum," sagði Sævar.

Hvernig heldurðu að stemningin verði á landsleiknum á fimmtudaginn?

"Hún verður þung og réttilega svo. Þetta er mjög þungt mál og það á ekkert á morgun eða hinn að vera orðin rosa stemning bara út af því að það er einn fótboltaleikur í gangi. Þetta er grafalvarlegt mál og það þarf að fara ofan í kjölinn og hreinsa til áður en við förum aftur að hafa gaman af hlutunum," sagði Sævar Pétursson í Kastljósi.