Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kolefnisjöfnun í Hrútafirði

28.08.2021 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Á Fjarðarhorni í Hrútafirði verður ráðist í eitt stærsta skógræktarverkefni á Íslandi. Tilgangurinn er að búa til vottaðar kolefniseiningar til að mæta losun koltvísýrings. 

Vottað kolefnisbindingarverkefni

Næstu 50 árin verða bundin um 90.000 tonn af koltvísýringi í nýjum skógi sem ræktaður verður á 250 hekturum lands. Ræktunin er fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefnið sem íslenskt fyrirtæki ræðst í. Það er fyrirtækið Festi hf. sem hefur keypt jörðina Fjarðarhorn sem liggur að athafnasvæði Staðarskála og hyggst þannig kofnisjafna starfsemi sína með plöntun trjáa.

Verkefnið er það fyrsta sem er unnið samkvæmt gæðakerfi Skógræktarinnar og er það fyrsta sem skráð er í svokallaða Loftslagsskrá Íslands. Gunnlaugur Guðjónsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni segir að verkefnið sé mikilvægt innlegg inn í ákall Loftslagsráðs sem sendi frá sér ályktun um ábyrga kolefnisjöfnun. „Þarna er verið að tryggja að sú kolefnisbinding verði til.“

Hefur mikil áhrif

Verkefnið er stórt, en til samanburðar eru í kringum 1200 hektarar gróðursettir árlega. Það mun því hafa umtalsverð áhrif á svæðið en áður var þar sauðfjárbú. Vonir standa til að ræktun og umhirða skógarins skapi þarna atvinnutækifæri. 

Stórtæk skógrækt hefur þó mætt ákveðinni gagnrýni vegna áhrifa á dýralíf og landslag. Gunnlaugur segir að það séu nokkrar gagnrýnisraddir á stórtæka skógrækt á Íslandi og auðvitað hafi hún áhrif á landið. „En á Íslandi er nóg pláss fyrir alls konar verkefni og skógrækt þarf ekkert að vera á öllum svæðum en þarna er land sem er ekki nýtt fyrir neitt annað og sjálfsagt að nota það,“ segir Gunnlaugur.