Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætlar að ræða við Guðna - stjórn KSÍ á Teams-fundi

Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV

Ætlar að ræða við Guðna - stjórn KSÍ á Teams-fundi

28.08.2021 - 14:30
Lárus Blöndal, forseti Íþróttasambands Íslands, segist ætla ræða við formann Knattspyrnusambands Íslands um málið sem greint var frá í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld. „Þetta er mál sem þarf að fara ofan í kjölinn á og ég vona að KSÍ sé að því,“ segir Lárus í samtali við fréttastofu. Stjórn KSÍ situr á Teams-fundi vegna málsins.

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu á skemmtistað fyrir fjórum árum, hefur greint frá því að lögmaður á vegum KSÍ hafi spurt hvort hún væri tilbúin að skrifa undir þagnarskyldusamning og fá greiddar miskabætur.  

Samkvæmt heimildum fréttastofu áttu miskabæturnar að vera 300 þúsund krónur.

KSÍ vísaði því á bug í yfirlýsingu í gærkvöld en Þórhildur hefur bæði á samfélagsmiðlum og í samtali við fréttastofu haldið sig við frásögn sína; að umræddur lögmaður hafi verið á vegum KSÍ. 

Hart hefur verið sótt að Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, eftir að fréttin birtist í gærkvöld. Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, er meðal þeirra sem hafa tekið undir gagnrýni á vinnubrögð og viðbrögð formannsins.

Ekki hefur náðst í Guðna en Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ,  staðfestir í smáskilaboðum til fréttastofu að stjórn knattspyrnusambandsins sitji nú á Teams-fundi. Stjórnarmenn hafa ekki svarað símtölum fréttastofu.

Lárus segist í samtali við fréttastofu ekki geta tjáð sig mikið um þetta tiltekna mál þar sem hann hafi aðeins heyrt af því í fjölmiðlum í gær og í dag.   

Innan ÍSÍ væri verið að undirbúa stofnun vinnuhóps um hvernig væri hægt að aðstoða íþróttahreyfinguna í viðkvæmum málum.  „Þetta er stór hreyfing og það er mikilvægt að búa til leiðbeiningar.“

Þetta hefði þegar verið gert að einhverju leyti með stofnun svokallaðs samskiptaráðgjafa. Með honum væri hægt að skjóta málum til óháðs aðila þannig að hreyfingin sjálf væri ekki dómari í eigin sök.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Segir lögmanninn hafa verið á vegum KSÍ

Íþróttir

Ber ekki saman um hvort lögmaðurinn var á vegum KSÍ

Innlent

Guðni segir ummælin í Kastljósi í gær hafa verið mistök

Innlent

Landsliðsmaður játaði brot og greiddi miskabætur