Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bretar á lokametrum brottflutnings frá Kabúl

epa09430516 Afghans struggle to reach the foreign forces to show their credentials to flee the country outside the Hamid Karzai International Airport, in Kabul, Afghanistan, 26 August 2021. At least 13 people including children were killed in a blast outside the airport on 26 August. The blast occurred outside the Abbey Gate and follows recent security warnings of attacks ahead of the 31 August deadline for US troops withdrawal.  EPA-EFE/AKHTER GULFAM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn mun hvorki gleyma né fyrirgefa þeim sem stóðu að baki árásinni fyrir utan Hamid Karzai Alþjóðaflugvöllinn í Kabúl í Afganistan í gær. Forsetinn Joe Biden segir að þeir verði leitaðir upp og látnir gjalda fyrir gjörðir sínar.

 

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær sagði Biden atburði gærdagsins, þegar tveir vígamenn sprengdu sig í loft upp með þeim afleiðingum að um níutíu létust og yfir hundrað og fimmtíu særðust, breyti engu hvað varðar brottflutning frá Kabúl á vegum bandarískra stjórnvalda.

Bandaríkjamenn ætla að ljúka rýmingu 31. ágúst og sagði Biden að þótt milljónir Afgana hefðu hug á að komast úr landi væri ljóst að Bandaríkjamenn gætu ekki hjálpað þeim öllum.

Bretar eru á lokametrunum hvað varðar brottflutning á þeirra vegum. Varnarmálaráðherrann Ben Wallace segir að um þúsund manns verði flutt frá landinu í átta eða níu flugferðum. Allir þeir sem fluttir verða hafa nú þegar fengið heimild til flutnings en um þúsund Afganir sem höfðu fengið vilyrði frá breskum stjórnvöldum verða eftir í Afganistan.

Sömu sögu má segja um allt að 150 breska ríkisborgara sem sumir hverjir hafa tilkynnt stjórnvöldum að þeir vilji verða eftir.

Þá tilkynntu sænsk stjórnvöld í morgun að fleiri yrðu ekki fluttir frá Kabúl í Afganistan á þeirra vegum. Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, segir að aðstæður á Hamid Karzai flugvellinum í Kabúl séu bæði erfiðar og hættulegar.

Svíar hafa þegar flutt 1.100 manns frá Afganistan eftir valdatöku Talibana. Ekki tekst þó að flytja alla þá sem til stóð frá landinu.