Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mannanafnanefnd slakar á reglum

25.08.2021 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Mannanafnanefnd hefur slakað á þeim kröfum sem gerðar eru til nýrra nafna á skrá. Tökunöfn teljast nú gjaldgeng þótt þau séu rituð með hætti sem tíðkast í erlendu máli, og ekki nauðsynlegt að rithátturinn hafi ekki að öðru leyti unnið sér hefð í íslensku máli.

Eftir sem áður þarf nafnið þó að taka íslenskri eignarfallsendingu og má ekki vera barni til ama.

Breyting á vinnulagsreglum mannanafnanefndar var samþykkt á fundi hennar í júlí og hafa nýjar reglur verið hafðar til hliðsjónar við afgreiðslu nefndarinnar síðan.

Glöggt má sjá af úrskurðum hennar að fleiri nöfn sleppa með þessu í gegn. Frá því reglum var breytt hefur nefndin tekið fyrir 33 umsóknir um eiginnöfn og samþykkt allar nema þrjár.

Aðeins eiginnöfnin Gunnarson, Guðrúnhalla (í einu orði) og Lúsífer hafa ekki hlotið náð fyrir augum nefndarinnar.

Meðal samþykktra eiginnafna eru hins vegar mýmörg nöfn með erlendri stafsetningu, þar á meðal Saara, Sarah, Charlie, Skylar, Thalia, Joseph, Margaret og Octavius.

Af eldri úrskurðum nefndarinnar má ætla að nefndin hefði áður fyrr ekki samþykkt öll þessi nöfn. Nægir að nefna kvenmannsnöfnin Cara, Milica, Aisha, Zíta og Leah, sem öllum hefur verið hafnað á þeim forsendum að þau væru ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki fyrir þeim hefð.

Nefndin verið gerð afturreka með huglægt mat

Aðalsteinn Hákonarson, málfræðingur og formaður mannanafnanefndar, segir í samtali við fréttastofu að vinnureglur nefndarinnar séu uppfærðar annað slagið.

Hann bendir á rökstuðning nefndarinnar þar sem fram kemur að reynt hafi mun oftar á skilgreiningu „hefðar“ en gert hafði verið ráð fyrir. 

Bent er á að dómstólar hafi gert nefndina afturreka og komist að þeirri niðurstöðu að bókstafleg túlkun nefndarinnar á ákvæðum mannanafnalaga gangi gegn stjórnarskrá og tilgangi laganna.

Þannig var úrskurður nefndarinnar um kvenmannsnafnið Blær felldur úr gildi árið 2013 og tveimur árum síðar felldur úr gildi úrskurður um millinafnið Gests.

Að teknu tilliti til þess telji nefndin að eldri reglur uppfylli ekki þær kröfur sem gera verður til matskenndra stjórnvaldsákvarðana.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýjar vinnulagsreglur mannanafnanefndar voru settar í síðasta mánuði.

Hvaða skilyrði þarf nýtt nafn að uppfylla?

Í lögum um mannanöfn frá árinu 1996 er kveðið á um fern skilyrði sem ný eiginnöfn þurfa að uppfylla til að nefndinni sé heimilt að samþykkja þau

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama

Þessum skilyrðum hefur ekki verið breytt. Flest þeirra eru þó nokkuð huglæg og hefur nefndin því mótað eigin vinnureglur, til dæmis um það hvað teljist „hefð“.

Hingað til hefur einkum verið litið til þess hvort nafn sé þegar borið af Íslendingum, lífs eða liðnum.

Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;

e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.

Vert er að taka fram að „Íslendingur“ í skilningi reglnanna er sá sem öðlast hefur íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar. 

Við reglurnar hefur nú bæst nýtt ákvæði, sem lýsir þeim breytingum sem hér hafa verið tíundaðar.

Ritun tökunafns með þeim hætti sem gjaldgengur er í veitimálinu [þ.e. hinu erlenda máli, innsk.] telst hefðbundinn.

Frávik eru heimil ef um er að ræða aðlögun að almennum íslenskum ritreglum. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV