Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ferð Harris frestað vegna Havana-veiki

25.08.2021 - 02:14
epa09427809 A handout photo made available by the Vietnam News Agency shows US Vice President Kamala Harris arriving at Noi Bai international airport in Hanoi, Vietnam 24 August 2021. Harris is on an official visit to Vietnam from 24 to 26 August 2021.  EPA-EFE/LAM KHANH HANDOUT VIETNAM OUT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - VIETNAM NEWS AGENCY
Ferð Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, til Víetnam í gær var frestað um nokkrar klukkustundir vegna afbrigðilegra veikinda, að sögn utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Veikindin eru sögð svipa til þeirra sem sendiráðsstarfsmenn í Havana á Kúbu fundu fyrir árið 2016. 

Harris var í Singapúr áður en hún flaug til Hanoi í Víetnam. Ekki hefur verið greint frá því hver fann fyrir einkennum Havana-veikindanna. Ekkert er vitað um ástæður veikindanna, en líkur eru taldar á að örbylgjur valdi þeim. 

Fréttastofa BBC hefur eftir utanríkisráðuneytinu að eftir vandlega skoðun hafi verið ákveðið að fresta för Harris og sendinefndar hennar frá Singapúr vegna veikindanna. Heimildir fjölmiðla vestanhafs herma að í það minnsta einn embættismaður hafi verið færður undir læknis hendur um helgina. Þá var greint frá því að þetta væri ekki fyrsta tilfelli Havana-veikinnar í Víetnam. Tveir bandarískir embættismenn voru fluttir til læknis eftir að einangruð tilvik greindust á heimilum tveggja bandarískra diplómata í landinu.

Havana-veikin hefur greinst bæði í Kína og í Austurríki síðan fyrst frétitst af henni í Havana árið 2016. Hundruð bandarískra sendiráðsstarfsmanna, njósnara og annarra starfsmanna hafa greint frá einkennum á borð við suð í eyrum, ógleði og mikla höfuðverki.