Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erum í upphafi nýs framfaraskeiðs í sögu þjóðarinnar

ásgeir jónsson seðlabankastjóri eftir vaxtaákvörðunarfund 25. ágúst
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Seðlabankastjóri segir að kórónuveirufaraldurinn geti reynst blessun í dulargervi og að þjóðin sé að ganga inn í nýtt framfaraskeið. Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að hækka stýrivexti um 0,25 prósent og eru stýrivextir bankans nú 1,25 prósent.

Ákvörðun peningastefnunefndar kom nokkuð á óvart því greiningaraðilar höfðu spáð því að bankinn myndi halda stýrivöxtum óbreyttum í ljósi óvissunnar um útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Í rökstuðningi nefndarinnar segir að meiri kraftur sé í hagkerfinu en reiknað var með í fyrri spám bankans. Vöxtur ferðamanna er örari, atvinnuleysi fer hratt minnkandi sem og slakinn í þjóðarbúskapnum.

Hins vegar eru horfurnar í ferðaþjónustu lakari á fjórða ársfjórðungi og verðbólga er tekin að hjaðna. Það er mat Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, að fjórða bylgja faraldursins valdi ekki teljandi búsifjum.

- Er þetta tímbær vaxtahækkun?

„Við teljum svo. Kannski sýnir það í fyrsta lagi að við teljum að farsóttin, COVID-19, muni ekki valda umtalsverðum efnahagsvandræðum á Íslandi, að við séum að ná að lifa með henni.“

Veiran blessun í dulargervi

Ásgeir segir að gangurinn í efnahagslífinu hafi verið góður og nú sé kominn tími til að tryggja að við förum ekki fram úr okkur. Það sé hins vegar hans trú að við séum að fara inn í kerfi þar sem minni þörf sé á vaxtahækkunum en áður. Ef Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins vinni saman, þá verði bæði verðbólga og vaxtastig lág til framtíðar.

Seðlabankastjóri afar bjartsýnn á efnahagshorfur til skamms tíma. „Ég tel að einhverju leyti geti farsóttin verið blessun í dulargervi, það er að segja að ferðaþjónustan hætti að vera jafn yfirgnæfandi og sú grein var, að það séu aðrar greinar að koma fram. Þannig að ég tel að þær séu mjög góðar, ég tel að við séum núna í upphafi að nýju framfaraskeiði þjóðarinnar.“

Magnús Geir Eyjólfsson