„Ég var álitinn glæpamaður“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var álitinn glæpamaður“

25.08.2021 - 11:03

Höfundar

„Það vissu allir hver ég var,“ segir mannréttindafrömuðurinn og söngvaskáldið Hörður Torfason sem fyrstur Íslendinga kom opinberlega út úr skápnum sem samkynhneigður. Hann sætti ofsóknum og flúði land um hríð en kom til baka, ferðaðist um landið, ræddi við samlanda sína og opnaði augu þeirra.

Söngvaskáldið og mannréttindafrömuðurinn Hörður Torfason var fyrstur Íslendinga til að lýsa opinberlega yfir samkynhneigð sinni. Það gerði hann árið 1975 og sætti slíkum ofsóknum í kjölfarið að hann flutti af landi brott um hríð. Hann lýsir lífi hinsegin fólks á þeim tíma sem ömurlegu. „Það var mikill feluleikur og varð mikil neysla áfengis og ýmissa tengdra efna. Svo var þegjandi samkomulag um að þeir sem réðust á og gengu í skrokk á okkur máttu það,“ segir hann í viðtali við Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttur í Með okkar augum sem er á dagskrá í kvöld.

Það kom aldrei til greina fyrir Hörð að gefast upp, enda leit hann ekki á rödd sína sem baráttutól heldur fannst honum hlutverk sitt sem listamaður vera að nota hana og takast á við samfélagið með þessum hætti. „Það vissu allir hver ég var. Ég var álitinn glæpamaður fyrir að vera hommi og stimplaður sem slíkur,“ segir hann.

Hörður brá á það ráð að mæta þeim sem uppnefndu hann, og líka þeim sem sátu hjá, augliti til auglitis í opnu samtali. Hann ferðaðist um landið á eigin kostnað og heimsótti hvert einasta þorp. „Það er það sem maður kallar sýnileika. Fólk talaði, ég þurfti þess ekki því allir vissu hver ég var, og svona var þetta ár eftir ár þangað til fólk kom og talaði við mig,“ rifjar hann upp. „Ekki vegna þess að ég vissi meira, en ég var tilbúinn að ræða hlutina.“

Með okkar augum er á dagskrá klukkan 20:25.

Tengdar fréttir

Tónlist

Enginn vildi hlusta á „kynvillingatónlist“