Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Duterte verður varaforsetaefni

25.08.2021 - 06:36
epa08333366 A handout photo made available by the Presidential Photographers Division (PPD) shows Philippine President Rodrigo Duterte speaking during a nationwide address inside Malacanang presidential palace in Manila, Philippines, on 30 March 2020 (issued on 31 March 2020). Duterte announced on 30 March a 200-billion Philippine Peso (3.9 billion US dollar) economic aid package to assist informal sector workers and people whose income has dried up amid the COVID-19 pandemic.  EPA-EFE/KING RODRIGUEZ/ HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Mynd: EPA-EFE - PPD
Forsetinn Rodrigo Duterte ætlar að verða varaforsetaefni flokks síns í forsetakosningunum í Filippseyjum á næsta ári. Al Jazeera hefur þetta eftir tilkynningu frá flokknum í gær. Tilkynningin var birt í aðdraganda landsfunds flokksins 8. september næstkomandi, þar sem talið er að flokkurinn samþykki tilnefningu öldungadeildarþingmannsins Christopher Go sem forsetaefni flokksins.

Lögum samkvæmt má Duterte ekki bjóða sig fram til síns þriðja kjörtímabils sem forseti. Gagnrýnendur hans segja hann leita í varaforsetaembættið til þess að forðast mögulega eftirmála forsetatíðar hans. Til að mynda eru líkur á að Alþjóðaglæpadómstóllinn rannsaki Duterte fyrir mögulega glæpi gegn mannkyninu. Saksóknari við dómstólinn hefur óskað eftir leyfi fyrir formlegri rannsókn á morðum sem framin hafa verið í stríði Dutertes gegn fíkniefnum.
Duterte viðurkenndi það sjálfur í júlí að hann ætlaði að leitast eftir varaforsetaembættinu til að forðast það sem hann kallaði illa meðferð. 

Duterte hefur sjálfur lýst því ítrekað yfir að hann vilji að Go verði arftaki sinn. Go sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist engan áhuga hafa á forsetaembættinu. Síðustu mánuði hefur hann þó verið á ferðalagi um landið til að kynna fyrirætlanir sínar. 

Feðginaframboð talið líklegt

Dóttir Dutertes, Sara Duterte-Carpio, hefur viðurkennt að hún íhugi forsetaframboð. Þó hún tilheyri ekki flokki föður síns, eru taldar líkur á að feðginin færu saman fram. Duterte-Carpio er nú borgarstjóri í Davao, embætti sem faðir hennar gegndi áður.

Þá hefur hnefaleikakappinn og öldungadeildarþingmaðurinn Manny Pacquiao lýst áhuga sínum á forsetaframboði. Þar til nýlega hefur hann stutt Duterte. Undanfarið hefur hann fjarlægst forsetann, til að mynda gagnrýnt hann fyrir afstöðu hans í deilunum við Kína í Suður-Kínahafi og gagnrýnt meinta spillingu í heilbrigðisráðuneytinu í heimsfaraldrinum.