Þingmenn Ennahdha-flokksins, sem fór með stjórn landsins þar til Saied rak forsætisráðherrann og skikkaði þingheim í 30 daga leyfi, saka forsetann um valdarán, enda leyfi stjórnarskráin ekki að forsetinn rjúfi þing.
Forsetinn vísar þessu á bug og segist ekki hafa rofið þing, heldur einungis stöðvað starfsemi þess. Skákar hann í skjóli umdeildrar túlkunar sinnar á grein í stjórnarskránni, sem heimilar forseta að stöðva þingstörf „ef bráð hætta vofir yfir.“
Rak forsætisráðherrann í kjölfar fjöldamótmæla
Mikil og fjölmenn mótmæli gegn forsætisráðherranum Machichi og Ennhadha-flokknum brutust út í júlí, vegna óstjórnar og efnahagsþrenginga sem hvort tveggja versnaði enn við innreið heimsfaraldurs kórónaveirunnar.
Saied lét sér ekki nægja að reka forsætisráðherrann og senda þingið heim, því ekki leið á löngu áður en hann rak fleiri ráðherra, sjónvarpsstjóra ríkissjónvarpsins og fleiri háttsetta embættismenn og raðaði sér þóknanlegum mönnum í embættin í þeirra stað.
Fékk góða kosningu 2019 og tekur nú öll völd
Said tók við völdum í október 2019, en hann sigraði með yfirburðum í forsetakosningum það ár. Hann var prófessor í lögum og hafði enga fyrri reynslu af stjórnmálum.
Forsetinn hefur sagst ætla sér að yfirtaka framkvæmdavaldið með fulltingi forsætisráðherra og ríkisstjórnar sem hann sjálfur muni skipa. Forysta Ennahdha-flokksins hefur lýst vilja sínum til að efna til þing- og forsetakosninga til að tryggja lýðræði í landinu. Áður en til kosninga komi þurfi þingið þó að snúa aftur til starfa og herinn að láta af öllum afskiptum af stjórnmálum, hefur AFP-fréttaveitan eftir Noureddine B'Hiri, háttsettum flokksmanni.
Tíu ár eru síðan einræðisherranum Zine El Abidine var steypt af stóli í byltingu sem var hluti af Arabíska vorinu svonefnda en margir íbúar Túnis segja lífskilyrði lítið hafa batnað.
Alls hafa níu stjórnir setið að völdum frá byltingu en stjórninni sem forsetinn vék frá var mjög legið á hálsi fyrir slæleg viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum.