Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engir afarkostir fyrir starfsfólk Play

24.08.2021 - 09:17
forstjóri play
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson
Ekki er verið að setja starfsfólki flugfélagsins Play neina afarkosti segir Birgir Jónsson forstjóri félagsins.

Hann er ósáttur við frétt Morgunblaðsins þar sem fram kom að starfsfólki flugfélagsins hafi verið boðin fastráðning í vetur gegn lækkun á starfshlutfalli. 

Birgir segir starfsfólk félagsins hafa stungið upp á því að dreifa vaktaálagi í vetur til þess að sumarstarfsmenn, sem ættu að ljúka störfum í haust, gætu haldið áfram að starfa fyrir Play þangað til að umsvif félagsins aukast aftur næsta vor með flugi til Bandaríkjanna.

„Þetta er ekki tilboð frá okkur eða afarkostir sem við setjum okkar starfsfólki. Þegar ég heyrði þetta i síðustu viku fannst mér þetta dæmi um góðan starfsanda og teymishugsun hjá okkar starfsfólki,“ segir Birgir í samtali við fréttastofu.

Hann segir að að vegna faraldursins haldi félagið aðeins að sér höndunum en engin þetta sé ekki merki um frávik frá plönum Play.

„Það eru alls engin frávik frá okkar plönum eða afarkostir eða tilboð frá okkur. Mikið af þessu starfsfólki getur boðið sig fram, eru í skóla eða með börn í skólum og þeirra aðstæður bjóða upp á það að lækka hlutfall sitt. Það yrði þá til þess að einhver annar starfsmaður myndi ekki bara hætta heldur fá vinnu í vetur,“ segir Birgir.

Andri Magnús Eysteinsson