Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir alhæfingu um hjúkrunarheimili vonbrigði

23.08.2021 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sú alhæfing að hjúkrunarheimili séu geymslustaðir fyrir aldraða eru mikil vonbrigði, segir formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Vísar hann þar í ummæli kanadísks sérfræðings á heilbrigðisþingi. Hins vegar þurfi regluverk um þjónustuna að vera einfaldara.

Samir Sinha, forstöðumaður öldrunarlækninga við Sinai-sjúkrahúsið í Kanada, sagði í fréttum RÚV í gærkvöld að Ísland stæði sig einna verst allra landa í ráðstöfun fjár í heilbrigðisþjónustu eldra fólks. Of lítið fari í heimaþjónustu og eldra fólk sé í stórum stíl sett í geymslu inni á hjúkrunarheimilum. 

Björn Bjarki Þorsteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir síðastnefndu ummælin vonbrigði. Hjúkrunarheimilin hafi þvert á móti haft það orð á sér að sinna skjólstæðingum sínum af kostgæfni.

„Við höfum líka, og stjórnvöld eiga heiður að því, verið að endurbæta og stórbæta húsakost hjúkrunarheimilanna víðast hvar. Við erum til dæmis nánast búin að útrýma tvíbýlum. Þannig að ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með þessa alhæfingu að hjúkrunarheimili á Íslandi séu geymslurými.“

Björn Bjarki er hins vegar sammála því að bæta þurfi þjónustu við aldraða sem búa heima hjá sér.  „Og við þurfum líka að einfalda regluverkið í kringum það því að sveitarfélögin eru að sinna einu og ríkisvaldið öðru, og þá í gegnum heilsugæsluna. Ég hef stundum nefnt sem dæmi að þeir sem búa heima og þurfa aðstoða við að þrífa heima hjá sér þeir leita til sveitarfélaganna, en til ríkisvaldsins ef þeir þurfa aðstoð við að baða sjálfa sig heima. Þannig að þetta er mjög þörf umræða og við fögnum henni mjög.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV