Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikið af gömlum veiðarfærum berst á land

23.08.2021 - 08:45
Mynd með færslu
 Mynd: Langanesbyggd.is - Vefur
Fjögur tonn af rusli söfnuðust þegar sjálfboðaliðar gengu um tveggja kílómetra leið eftir strandlengjunni á Langanesi. Veiðarfæri voru stór hluti af því.

Átti ekki von á þessu magni

Rúmlega 20 sjálfboðaliðar frá þrennum umhverfissamtökum tóku þátt í söfnuninni sem stóð í tvo daga, að frumkvæði hóps sem kallast Ocean Missions. Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson átti þátt í skipulagningunni fyrir hönd sveitarfélagsins og segir að það hafi komið honum nokkuð á óvart hve mikið ruslið var.

„Þetta var rosalega mikið veiðarfæri. Þetta var líka mikið af  plastbrúsum, einhver smá fatnaður og alls konar glerflöskur og mikið af brotnum vinnslukössum,“ segir Sigurbjörn.

Hægt ef viljinn er fyrir hendi

Hópurinn tíndi rusl á tveggja kílómetra kafla, allt frá vegarkanti og niður í fjöruborð. Sigurbjörn segir að það hafi blásið þátttakendum krafti í brjóst að sjá hvað samtakamátturinn var öflugur og árangurinn sýni að það sé mögulegt að hreinsa strandlengjuna ef viljinn er fyrir hendi. Hluti af Langanessi sé þó ófært klif og þann hluta sé erfitt að hreinsa þó þörfin sé mikil.

„Þar er allt fast í rekavið og það er alveg ógurlegt magn af drasli og stemmdi alveg við það sem menn bjuggust við, að hafstraumarnir eru miklir, maður sér það á allri strandlengjunni,“ segir Sigurbjörn.

Þessum fjórum tonnum af rusli sem tínt var á eftir að farga en stefnt er á að það verði urðað.