Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hólfaskipting nauðsynleg og áskoranir í skólastarfi

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Formaður félags grunnskólakennara segir að hólfa þurfi niður skóla til að koma í veg fyrir smit og sóttkví skólabarna. Margar áskoranir bíði kennara og foreldra fyrir komandi skólavetur. Á morgun hefst bólusetning 12-16 ára barna í Laugardalshöll. Hún er þegar hafin víða á landsbyggðinni.

Nýjar reglur um sóttkví barna á leik og grunnskólaaldri voru kynntar í gær. Samkvæmt þeim er reynt að fækka þeim börnum sem þurfa að fara í sóttkví ef smit kemur upp í nemendahópnum. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara segist hafa blendnar tilfinningar gagnvart reglunum. Það hafa verið ærið tilefni til að skýra hugtök um það hvernig eigi að haga skólastarfi við þessar aðstæður. 

„ Þessi tilmæli eru ekki einungis til skóla og það er ljóst að það verður ekki hægt að halda úti skólastarfi og koma í veg fyrir að fjöldinn allur af börnum fari í sóttkví nema að til komi veruleg hólfun í skólastarfinu.“ segir Þorgerður Laufey.

Hún segir að það sé erfiðast að eiga við samblöndun meðal yngstu barnanna og komi til þess að þau smitast þurfa foreldrar að annast þau og fara þar með í sóttkví. Markmiðið sé að minnka veikindi og útbreiðslu.

„Og þetta eru þær áskoranir sem kennararnir standa frammi fyrir þegar þeir eru að taka á móti börnunum á mánudaginn, flestir hverjir. Það varð til þess að það þurfti enn frekar að fara að skilgreina hverjir eru í miklum samskiptum, hverjir eru í daglegum samskiptum. Þetta er ákveðið flækjustig sem hefði verið gott að fá fram með þessum hætti skýrara fyrr. Þetta er ekki áskorunarlaust, hvorki fyrir kennara né foreldra.“ segir Þorgerður.

Heldurðu að þetta séu nógu harðar aðgerðir til að tempra smit og draga úr útbreiðslu? 

Ég vona það besta en óttast það versta það er þannig. Ég vonast til þess að allir taki þeim tilmælum sem búið er að halda á lofti mjög lengi, að 200 manna samkomur eru til spari, þær eru ekki eitthvað sem á að vera alla jafna.“ segir Þorgerður.