
Delta-afbrigðið skekur heimshagkerfið
„Við erum að sjá ótta um truflanir á framleiðslukeðjum og efnahagsstarfsemi eitthvað í líkingu við það sem var fyrr á árinu,“ segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Áhrif Delta afbrigðisins sjást víða. Eftirspurn hefur ekki haldist í hendur við væntingar sem meðal annars hefur orsakað mikla verðlækkun á olíu á heimsmarkaði undanfarnar vikur. Hefur verðið á ekki verið lægra í þrjá mánuði.
Bílaframleiðendur draga saman seglin
Bílaframleiðeindur eru einnig í vanda, en þar er vandamálið ekki skortur á eftirspurn heldur skortur á aðföngum, á svokölluðum hálfleiðurum nánar tiltekið. Þeir eru aðallega framleiddir í Asíu og hefur útbreiðsla Delta afbrigðisins raskað framleiðslu og framkallað skort. Margir af stærstu bílaframleiðendum heims hafa tilkynnt um að þeir neyðist til að draga úr framleiðslu og þarf Toyota, stærsti bílaframleiðandi heims, að minnka framleiðslu sína um 40 prósent.
Fjárfestar flýja í dollara
Ástandið hefur sömuleiðis valdið mikilli styrkingu dollars. Miðgengi seðlabanka Íslands í dag er 128 krónur en var í byrjun sumars 121 króna. Á sama tíma hefur krónan haldist stöðug gagnvart öðrum myntum. Auk útbreiðslu Delta afbrigðisins hafa atburðir liðinna vikna í Afganistan þrýst á styrkingu dollarsins. „Þetta hefur allt áhrif til þess að hvetja til ótta í öryggi eins og svo er kallað og dollarinn nýtur oft góðs af svoleiðis ótta. Þykir náttúrlega gríðarlega örugg eign að hafa og seljanleiki hans er náttúrlega meiri en nokkurs annars eigna flokks,“ segir Jón Bjarki.