Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Thompson-Herah hljóp á næst hraðasta tíma sögunnar

Mynd með færslu
 Mynd: EPA - EPA-EFE

Thompson-Herah hljóp á næst hraðasta tíma sögunnar

21.08.2021 - 21:41
Spretthlauparinn Elaine Thompson-Herah frá Jamaíku hljóp 100 metra á næst hraðasta tíma sögunnar, 10,54 sekúndum, á Demantamóti í Eugene í Bandaríkjunum í kvöld. Thompson-Herah er nýkrýndur Ólympíumeistari í greininni og jafnaði næst besta tíma sögunnar í Tókýó.

Mikil spenna var fyrir 100 metra hlaupinu á Demantamótinu í kvöld þar sem hin bandaríska Sha'Carri Richardson var meðal keppenda. Richardson var sett í mánaðarbann eftir að hafa mælst með marijúana í blóðinu eftir bandaríska ólympíuúrtökumótið. Richardson náði sér þó ekki á strik og endaði í síðasta sæti. 

En það var ekki síður spenna fyrir Thompson-Herah sem hljóp hraðast allra á Ólympíuleikunum, bæði í 100 og 200 metra hlaupi. Hún bætti Ólympíumet Florence Griffith-Joyner frá árinu 1988 á leikunum, hljóp á 10,61 og jafnaði næst besta árangur sögunnar, sem er sömuleiðis í eigu Griffith-Joyner. Thompson-Herah hljóp 100 metrana á 10,54 í kvöld sem er einungis fimm hundruðustu úr sekúndu frá heimsmetinu.

Heimsmet Flo-Jo er 10,49 og var sett á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. Það er þó almennt talið að vindmælingar í heimsmetshlaupinu hafi verið vitlausar og raunar hafi verið of mikill vindur til þess að hlaupið geti talist gilt. 

Thompson-Herah heggur í það minnsta nær og nær meti Flo-Jo og enn eru möguleikar á að heimsmetið falli á þessu tímabili en fjögur demantamót eiga eftir að fara fram næsta mánuðinn. Löndur Thompson-Herah, Shelly Ann Fraser-Pryce og Shericka Jackson urðu í öðru og þriðja sæti í kvöld, eins og á Ólympíuleikunum þar sem Jamaíkukonurnar þrjár voru á palli.