Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Dansaði fyrir konu sem hann hélt að væri söngkonan Cher

Mynd: Hörður Sveinsson / Facebook

Dansaði fyrir konu sem hann hélt að væri söngkonan Cher

21.08.2021 - 14:00

Höfundar

„Er þetta hún? Er þetta söngkonan?“ spurði uppistandarinn Vilhelm Neto fjölskylduvin þar sem hann var staddur á Algarve, og ókunnug kona hóf upp raustina og fór að syngja lagið Believe með Cher. Staðráðinn í að heilla hana upp úr skónum stóð hann upp og dansaði fyrir hana.

Grínhópurinn VHS hefur notið mikilla vinsælda og hyggur nú á glænýja uppistandssýningu sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói 3. september. Tilgangur sýningarinnar er ekki síst að krefjast virðingar, en hópurinn kveðst bjóða fram til forseta Íslands í haust. VHS samanstendur af þeim Vigdísi Hafliðadóttur, Vilhelm Neto, Hákoni Erni Helgasyni og Stefáni Ingvari Vigfússyni. Þau kíktu öll í Tengivagninn á Rás 1 og sögðu frá misrétti sem þau hafa verið beitt á lífsleiðinni.

Vildi ekki bursta tennur fyrr en eftir mat

Reynsla Hákons er frá því hann var sjö eða átta ára og sat við morgunverðarborðið. „Ég var orðinn nógu gamall til að setja spurningarmerki við foreldra mína og það sem þau sögðu mér að gera,“ segir Hákon.

Móðir hans var að elda pönnukökur og móðursystir að drekka kaffi. Þarna hafi Hákon sjálfur tekið þá ákvörðun upp á eigin spýtur að það væri kolrangt að bursta tennur fyrir morgunmatinn, það væri réttara að gera það eftir mat. Mamma hans minnti hann á að bursta áður en pönnukökurnar væru borðaðar og sonurinn neitaði. „Það meikar ekki sens að bursta fyrir mat því það síðasta sem ég gerði var að bursta tennur, svo fór ég að sofa og vaknaði og það er ekkert búið að gerast uppi sem ég ætti að þrífa. Ég sagði nei og útskýrði þetta fyrir henni,“ rifjar hann upp. Mamma hans gaf ekki mikið fyrir röksemdafærsluna og ítrekaði skipunina en þá sagði móðursystir hans: „Þetta er bara frekar góður punktur hjá honum.“ Yfir þessu var Hákon afar hróðugur og leið sem réttlætinu hefði verið fullnægt. „Ég fann góða tilfinningu þegar fullorðin manneskja tók undir. Þess vegna ákvað ég að fara í framboð og ég er að bjóða mig fram sem forseta Íslands. Ég krefst virðingar,“ segir Hákon.

Hélt að þetta væri Cher og fór að dansa

Vilhelm Neto var líka um sjö ára þegar hann var beittur óréttlæti. Hann var staddur á Algarve með fjölskyldunni sem sat að snæðingi þegar ókunnug manneskja með hátalara og míkrófón byrjar að syngja lagið Believe með tónlistarkonunni Cher. Villi þekkti lagið og varð bergnuminn yfir því sem fyrir augu bar. „Ég horfi á manneskjuna syngja og sný mér til að spyrja fjölskylduvin sem var með okkur: Er þetta hún? Er þetta söngkonan?“ Viðkomandi svaraði: „Ha? Já.“

Vilhelm ákveður að grípa tækifærið og hann stendur upp og tekur dansspor með manneskjunni sem hann hélt að væri Cher. „Ég er að reyna að meika það því þetta er konan í útvarpinu,“ segir Villi sem áttaði sig ekki á því fyrr en mörgum árum síðar að það væri eitthvað bogið við minninguna. „Ég fattaði að þetta var ekki Cher heldur bara einhver kona að syngja. Ég fann ekki fyrir óréttlæti fyrr en síðar. Ef einhver hefði útskýrt þá að það hefði verið logið að mér og ég hefði bara dansað fyrir einhvern þá hefði ég kannski fundið fyrir óréttlæti.“ Þess vegna krefst hann virðingar og kveðst vera að bjóða mig fram til forseta Íslands.

Var rukkaður fyrir grímuna í bakaríinu

Stefán Ingvar Vignisson fann fyrir óréttlæti nokkuð nýverið í bakarí. Hann lýsir deginum sem góðum. Hann var á rafmagnshlaupahjóli á leið í vinnuna að hlusta á tónlist þegar hann fékk þá hugmynd að koma við í bakarí. Þegar inn var komið var hann enn með tónlist í eyranum en afgreiðslukonan kallaði á hana svo hann slökkti. Hún endurtók þá yfirlýsingu sína: „Það er grímuskylda.“ Stefán var ekki með grímu meðferðis og ætlaði sér að finna annað bakarí, þetta var áður en grímuskylda varð almenn í samfélaginu. En konan bauð honum grímu svo hann ákvað að koma inn í bakaríið.

Þegar röðin var komin að Stefáni spurði hann hvort þau ættu karmellukleinurhring. Því er neitað svo hann hyggur á brottför þegar afgreiðslukonan stoppar hann aftur og segir: „Gríman er ekki ókeypis, hún kostar hundrað krónur.“ Það var ekki fyrr en hann var kominn út úr bakaríinu sem það fóru að renna á hann fleiri grímur. „Þá poppar upp rödd í hausnum á mér: Heyrðu, það var verið að fokka í mér.“ Og eftir þetta kveðst hann hafa ákveðið að bjóða sig fram til forseta.

Vigdís Hafliðadóttir átti ekki heimangengt til að greina frá sínu óréttlæti en fyrir forvitna verður hægt að heyra frá því á sýningu hópsins sem er frumsýnd þriðja september.

Tómas Ævar Ólafsson ræddi við VHS í Tengivagninum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Uppistandshópurinn VHS biðst forláts á ýmsu