Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spá tvöföldun stýrivaxta næsta árið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Greiningardeild Íslandsbanka býst við óbreyttum stýrivöxtum eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 25. ágúst næstkomandi og þeir verði því áfram 1,0%. Hins vegar sér deildin fram á að langvarandi vaxtahækkunarferli hefjist í nóvember.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem greiningardeildin sendi frá sér í dag og er undirrituð af Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka. Að mati greiningardeildar mun aukin óvissa um efnahagsbatann á komandi mánuðum vegna bakslags í COVID-19 faraldrinum vega þyngra í augum peningastefnunefndar en þrálátari verðbólga og versnandi nærhorfur um verðbólgu. Auk þess er kjölfesta langtíma verðbólguvæntinga enn sem komið er tiltölulega stöðug við markmið bankans.

Helstu rökin fyrir vaxtahækkun Seðlabankans í næstu viku að mati greiningardeildarinnar eru að verðbólga er enn yfir 4,0% þolmörkum verðbólgumarkmiðsins, hækkun íbúðaverðs hefur reynst talsvert hraðari en hækkun neysluverðlags og launa, innlend eftirspurn hefur tekið myndarlega við sér og þá ekki síst einkaneyslan og loks að skammtíma verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar hafa versnað.

Á hinn bóginn telur greiningardeild Íslandsbanka helstu rökin gegn vaxtahækkun vera hina miklu skammtímaóvissu vegna áhrifa Delta-afbrigðisins á ferðamannafjölda og hagþróun þar af leiðandi, áhrif vaxtahækkunar í maí og lækkunar veðsetningarhlutfalls eru enn að koma fram á íbúðamarkaði, atvinnuleysi er enn verulegt og að langtíma verðbólguvæntingar eru enn í samræmi við markmið.

Miðað við þá forsendu að eftir því sem líður á haustið dragi úr óvissu og að Delta-afbrigðið muni ekki reynast mikill dragbítur á bata ferðaþjónustunnar og um leið hagkerfisins alls metur greiningardeild Íslandsbanka það sem svo að peningastefnunefnd Seðlabankans láti nægja að hækka vexti einu sinni á þessu ári og þá um 0,25%. Býst greiningardeildin frekar við slíkri hækkun í nóvember heldur en í október.

En þar með er hafið langvarandi skeið stýrivaxtahækkana, að mati Jóns Bjarka og samstarfsfólks í greiningardeild Íslandsbanka. Gerir greiningardeildin ráð fyrir 0,25% hækkun stýrivaxta í hverjum ársfjórðungi næstu tvö árin. Óvissan sé þó meiri þar að lútandi eftir því sem lengra er skyggnst inn í framtíðina og mestu þar um munu ráða þættir á borð við kórónuveirufaraldurinn, verðþróun á fasteignamarkaði og loks kjarasamningar sem líklega verða gerðir seint á næsta ári.