Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Raab í sumarfríi meðan Kabúl féll

20.08.2021 - 12:57
epa08986574 Cypriot Minister of Foreign Affairs Nikos Christodoulides (R) and British Foreign Secretary Dominic Raab (L) at a press conference after a meeting in Nicosia, Cyprus, 04 February 2021. Foreign Secretary Raab is on a working visit to Cyprus.  EPA-EFE/IAKOVOS HATZISTAVROU / POOL
 Mynd: EPA
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, sætir nú þrýstingi heima fyrir vegna þess hvernig hann hélt á málum í aðdraganda þess að Kabúl féll í hendur talíbana.

Á meðan vestræn ríki voru óða önn að tryggja öryggi borgara sinna var Raab í sumarfríi.

Komið hefur í ljós að ráðgjafar ráðherrans höfðu á fimmtudag fyrir viku ráðlagt honum að hringja í afganska utanríkisráðherrann. Hann gæti aðstoðað Breta við að koma til hjálpar afgönskum túlkum sem hafa unnið fyrir breska herinn.

Raab reyndi að koma því verkefni yfir á undirráðherra sína en þeim var tjáð að afganski ráðherrann myndi aðeins ræða við Raab. Að endingu varð ekkert að samtalinu.

Talsmaður ráðherrans segir að staðan hafi breyst svo hratt að ekki hafi verið hægt að koma símtalinu í kring.

Verkamannaflokkurinn segir skömm stjórnarinnar mikla

Lisa Nandy, talsmaður Verkamannaflokksins í utanríkismálum, segir það ófyrirgefanlegt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra landsins hafi verið í fríi á sama tíma og stærsta utanríkiskrísa í áraraðir standi yfir.

Átján mánuðir séu síðan Bandaríkjamenn ákváðu að herlið yrði flutt á brott og fjórir mánuðir síðan tímasetning lá fyrir. Þrátt fyrir það er flugvöllurinn troðinn af fólki á leið úr landi, ekki er hægt að afgreiða skjöl og stjórnvöld viðurkenni nú opinberlega að fólk verði skilið eftir og sumir muni deyja.

Skömm ríkisstjórnarinnar hafi aldrei verið meiri.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV