Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Loftslagsbreytingar og umhverfisvá ógna milljarði barna

General views of Markazi refugee camp, Djibouti. 13th July 2015. © UNICEF/Djibouti15/Matas
 Mynd: © UNICEF/UKLA2015 - 00072/Matas
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, áætlar að um milljarður barna í 33 ríkjum heims séu í mikilli hættu vegna loftslagsbreytinga, hlýnunar Jarðar, mengunar og annarra aðsteðjandi umhverfisógna. Þetta kemur fram í skýrslu UNICEF, Áhættuvísi fyrir börn heimsins, þeim fyrsta sem unninn hefur verið.

 

Hann er byggður á rannsókn á gögnum um aðstæður barna í 163 ríkjum heims, þar sem sérstaklega er horft til þeirra ógna sem að þeim steðja vegna orðinna og yfirvofandi loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra, mengunar og fleiri umhverfisþátta.

Ástandið verst í Afríku og Asíu

Sú rannsókn leiðir í ljós að börn í Afríku og hluta Asíu standa verst að vígi og eru í mjög mikilli hættu af völdum loftslagsbreytinga. Jafnframt kemur fram að 99 prósent allra heimsins barna eru útsett fyrir minnst einni umhverfisógn. Milljarður barna býr við mjög mikla loftmengun, yfir 900 milljónir búa við vatnsskort og ríflega 800 milljónir barna eru útsettar fyrir miklum og tíðum hitabylgjum.

Bitnar verst á þeim sem síst skyldi

„Loftslagsbreytingarnar eru afar óréttlátar," segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þótt börnin beri enga ábyrgð á hækkandi hitastigi á Jörðinni eru það þau sem þurfa að gjalda þeirra dýrustu verði. Og börn í þeim löndum sem bera minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingunum munu líða allra barna mest."

Fimm skýrar kröfur

Í skýrslunni setur Barnahjálpin fram fimm skýrar kröfur á hendur  stjórnvalda, fyrirtækja og félagasamtaka um allan heim: 

  • Aukið fjárfestingu í aðlögun að loftslagsbreytingum, sem koma mun börnum og framtíðarkynslóðum til góða. 
  • Dragið úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins.
  • Fræðið börn um loftslags- og umhverfismál.
  • Hafið börn og ungmenni með í ráðum í öllum ráðagerðum og samningum um loftslagsmál, jafnt á landsvísu sem heimsvísu.
  • Tryggið græna og kolefnislitla enduruppbyggingu eftir heimsfaraldurinn þar sem öllum er hleypt að borðinu.