„Ég hreinlega ætla að viðurkenna að mig misminnti,“ segir Katrín. „Ég taldi satt að segja að íþróttaviðburðir utandyra þar sem fjarlægð er tryggð, og hún var algjörlega tryggð á þessum leik þar sem voru ekki sérlega margir gestir og við vorum utandyra, þá minnti mig hreinlega að það væri ekki grímuskylda á íþróttaviðburðum utandyra. Það var misminni og mér þykir mjög leiðinlegt að hafa brotið reglur með þessum hætti.“
Katrín segir að einhverjir í kringum sig hafi verið með grímur en ekki allir. Hún segist hafa talið að hún og aðrir væru að gera rétt.
Vefurinn fótbolti.net greindi frá því í gærkvöld að forsætisráðherra hefði ekki verið með grímu.
„Ég frétti nú bara af þessari umræðu hér I morgun á ríkisstjórnarfundi,“ sagði Katrín í viðtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi. „Ég var grímulaus í góðri trú og taldi að þar sem langt var á milli mín og næstu manna og við vorum utandyra að ég væri að gera rétt. Ég er mannleg eins og aðrir og hefði betur flett upp á covid.is fyrir leikinn.“