Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gjörðir Talibana stangast á við loforð þeirra

20.08.2021 - 19:36
epa09417744 Taliban fighters patrol in Kandahar, Afghanistan, 17 August 2021. Taliban co-founder Abdul Ghani Baradar, on 16 August, declared victory and an end to the decades-long war in Afghanistan, a day after the insurgents entered Kabul to take control of the country. Baradar, who heads the Taliban political office in Qatar, released a short video message after President Ashraf Ghani fled and conceded that the insurgents had won the 20-year war.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Enn reyna stjórnvöld á Vesturlöndum að koma fólki frá Afganistan. Þrátt fyrir fögur fyrirheit virðast Talibanar ekki standa við gefin loforð um að ráðast ekki gegn almennum borgurum.

Loforð Talibana frá því fyrr í vikunni, um að ráðast ekki á andstæðinga sína í Afganistan, virðast vera orðin tóm. Allavega stangast þau fögru fyrirheit verulega á við frásagnir frá Afganistan um að Talibanar gangi nú hús úr húsi til að finna fólk sem vann með Bandaríkjamönnum og Nato. 

Og þeir leita ekki bara samstafsfólks Atlandshafsbandalagsins. Þýski fjölmiðilinn Deautsche Welle greinir frá því að talíbanar hafi leitað logandi ljósi af fréttamanni þeirra sem starfaði í Afganistan, og hafi myrt ættingja fréttamannsins í leit sinni að honum.   

Sjaldan hefur verið fylgst eins grannt með flugumferð um flugvöllinn í Kabúl og nú. Stjórnvöld á Vesturlöndum reyna að koma sínu fólki og afgönskum samstarfsmönnum undanfarinna ára úr landi. Meðal þeirra sem komust frá Afganistan í gær var fréttaritari norska ríkisútvarpsins í Kabúl. 

Yama Wolasmal, fréttaritari NRK, sagði síðustu daga í Afganistan hafa verið svakalega, það sé mikið fyrir hann að vinna úr. Það muni taka hann nokkra daga að jafna sig. 

Stjórnvöld á Spáni ferjuðu í dag 110 manns frá Afganistan. Þá eru ótaldir þeir Afganar sem vilja flýja land, fólk sem vann ekki með þjóðum Atlantshafabandalagsins en óttast nýja stjórn Talibana. Enn sem komið er reynist þeim erfitt, ef ekki ómögulegt, að komast að heiman. 

Á Spáni er verið að undirbúa komu flóttafólks, stjórnvöld hafa komið upp búðum þar sem pláss er fyrir um 1000 manns. Ljóst er að þau eru mörg sem koma til álita í þau pláss, flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 550 þúsundir Afgana hafi flúið heimili sín það sem af er ári. 

Fjöldi fólks situr sem sé fastur í Afganistan, þrátt fyrir að hjálparsamtök þreytist ekki á að brýna mikilvægi þess að bjarga fólki frá landinu, fólki sem telur sig vera í hættu. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV