Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Carbon Iceland semur við Siemens Energy um tæknilausnir

20.08.2021 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: Carbon Iceland
Fyrirtækið Carbon Iceland, sem hyggst reisa lofthreinsiver á Bakka við Húsavík, hefur undirritað samkomulag við Siemens Energy í Þýskalandi um samstarf og tæknilega útfærslu á föngun koltvísýrings og framleiðslu eldsneytis á Bakka.

„Það er mikill styrkur og viðurkenning á Carbon Iceland-verkefninu að fá Siemens Energy í samstarf með tæknilegar útfærslur og þróun verkefnisins,“ segir í tilkynningu frá Carbon Iceland.

Þar segir að fyrirtækið áætli að fanga meira en milljón tonn af koltvísýringi þegar fullum afköstum verði náð. Að auki sé áætlað að framleiða loftslagsvænar vörur, bæði grænt eldsneyti og græna kolsýru, til að stórauka matvælaframleiðslu í landinu.

Tæpt ár er síðan Carbon Iceland kynnti áform um að hefja framkvæmdir við lofthreinsiver á Bakka árið 2023. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 140 milljarðar króna og það á að skapa þrjú til fimm hundruð störf.