Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íhuga að hraðprófa starfsmenn í sláturtíð

Mynd með færslu
 Mynd:
Sláturleyfishafar segja snúið að manna komandi sláturtíð. Dræmar viðtökur hafa verið við atvinnuauglýsingum hér innanlands. Þá fylgja því töluverðar áskoranir að fá erlent vinnuafl í heimsfaraldri. Hjá Norðlenska er til skoðunar að hraðprófa fyrir veirunni.

„Þetta er svona aðeins kannski snúið“

Sláturtíð hefst alla jafna í lok ágúst. Verkefnið er mannaflsfrekt og hafa sláturleyfishafar auglýst eftir starfsfólki að undanförnu. Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri Norðlenska segir mönnunina snúna en fyrirtækið þarf að ráða rúmlega 150 manns. „Ef maður ber saman við árið í fyrra þá fengum við hærra hlutfall en venjulega af fólki hérna innanlands. Það virðist nú vera svolítið að ganga til baka núna, kannski atvinnuleysi minna núna en var þá og færri tilbúnir til að stökkva á svona tímabundna vinnu. Þetta er svona aðeins kannski snúið,“ segir Jóna.

Breyting á vinnumarkaði frá því í fyrra

Sömu sögu er að segja frá Sláturfélagi Suðurlands. Þar þarf að ráða 120 manns. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir erfitt að fá Íslendinga til starfa. „Það er auðvitað breyting á vinnumarkaði frá því í fyrra sem hefur þau áhrif að færri gefa kosta á sér. En auðvitað er stemning í sláturtíð, þetta er ákveðin vertíð og mörgum sem finnst gaman að koma í það.“

Hraðpróf gætu hjálpað

Þegar veiran er enn víða í samfélaginu þarf að passa að hún berist ekki inn í starfsmannahópinn og lami starfsemina. Því skoðar Norðlenska það nú að skima starfsmenn með hraðprófum.  „Já, við erum að skoða það að eiga til hjá okkur hraðpróf. Þau koma auðvitað ekki í staðinn en þau gefa ákveðna vísbendingu. Maður getur ekki stólað kannski alveg 100% á það en það gæti hjálpað okkur samt sem áður að gera fyrstu síuna á hlutina,“ segir Jóna.