Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðir í sjúkraflugi hafa aldrei verið fleiri

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ferðir í sjúkraflugi hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði hér á landi en í júlí. Forstöðulæknir segir skýringuna meðal annars vera sumarfrí sérfræðilækna á landsbyggðinni.

Óvanalegur fjöldi

Flugfélagið Mýflug sinnir nánast öllu sjúkraflugi hér á landi. Félagið hefur yfir tveimur sjúkraflugvélum að ráða en hafa þær verið vel nýttar í sumar.

Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs segir júlí metmánuð. 
„Við flugum 100 sjúkraflug í júlí. Áður höfðum við mest flogið 89 sjúkraflug, það var í júlí 2019. Þessi fjöldi er mjög óvanalegur.“

Faraldurinn ekki áhrifavaldur

Leifur segir að faraldurinn hafi ekki haft þarna mikið að segja. „Sem betur fer voru mjög fá flug vegna veikinda í kjölfar COVID-19. Ég held það hafi verið eitt covid-flug í júlí,“ segir Leifur.

Flutningarnir hafi langflestir verið tengdir veikindum og þeim sem þurftu á flutningi að halda til og frá aðgerðarstöðum. Slys á fólki hafi verið í miklum minnihluta sjúkraflutninganna.

Sjúkraflugin lífæð

Oddur Ólafsson, forstöðulæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild, segir að ekki hafi verið farið í nákvæma greiningu á ástæðum aukningarinnar. Hann segir að fluglæknarnir hafi tilfinningu fyrir að þetta helgist af nokkrum samverkandi þáttum. Oddur nefnir þar meðal annars aukinn fjölda ferðamanna á Norður- og Austurlandi í sumar. Tölvusneiðmyndatæki hafi bilað í sumar á einu sjúkrahúsi á landsbyggðinni og slíkt hafi mikil áhrif. Eins séu sérfræðingarnir á sjúkrastofnunum úti á landi í sumarfríi á þessum tíma og reynsluminna fólk í störfunum.

Oddur segir heilbrigðisþjónustuna úti á landi gríðarlega viðkvæma. „Oft veltur þetta á nokkrum hausum, það er einn skurðlæknir hér og einn þar, einn lyflæknir o.s.frv. Þannig að þegar einhver einn fer í frí eða einn hættir, þá getur einhver þjónusta þurft að fara. Þannig að það má segja að sjúkraflugið sé svona ákveðin lífæð fyrir heilbrigðisþjónustu úti á landi,“ segir Oddur.