Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Saksóknari í máli R. Kelly: „Þetta snýst um rándýr“

18.08.2021 - 19:36
epa07553884 US singer R. Kelly (L) walks to the Layton Criminal Courts building for a status hearing on his sexual assault charges in Chicago, Illinois, USA, 07 May 2019. Kelly, through his attorney, is reportedly challenging evidence provided in two video tapes that allegedly show him having sex with a 14 year old girl.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: epa
Saksóknari í máli bandaríska tónlistarmannsins R. Kelly fékk í dag heimild til að leggja fram frekari gögn um kynferðislegt ofbeldi listamannsins sem ná aftur til ársins 1991. Þau snúa meðal annars að hjónabandi hans og söngkonunnar Aaliyuh. Saksóknarinn lýsti söngvaranum sem rándýri í upphafsræðu sinni og verði hann fundinn sekur gæti hann þurft að sitja á bakvið lás og slá í nokkra áratugi.

R. Kelly, sem heitir réttu nafni Robert Sylvester Kelly, bar höfuð og herðar yfir aðra listamenn í R&B-tónlistarheiminum á tíunda áratug síðustu aldar með smellum eins og I Believe I Can Fly. 

Eitthvað rotið

Ásakanir um óviðeigandi hegðun gagnvart ungum stúlkum fylgdu honum þó eins og skugginn, eins og rakið er í ítarlegri umfjöllun Washington Post

Hann var til að mynda sóttur til saka fyrir framleiðslu barnaníðsefnis árið 2008 vegna myndskeiðs af honum og stúlku sem sögð var undir lögaldri.

Myndskeiðið var sent til Jim DeRogatis, blaðamanns The Sun-Times, sem hafði nokkrum árum áður fjallað um málsóknir á hendur söngvaranum fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn ungum stúlkum.  

R. Kelly var sýknaður þar sem verjendur sannfærðu dóminn um að myndskeiðið væri óskýrt og því væri ekki hægt að bera kennsl á stúlkuna.  Einn af verjendunum viðurkenndi í blaðaviðtali að hafið væri yfir allan vafa að söngvarinn var sekur.

Heimildarþáttaröð fyllti mælinn

Vafasöm hegðun R. Kelly komst aftur í kastljós fjölmiðla fyrir fjórum árum þegar áðurnefndur DeRogatis í samstarfi við Buzzfeed birti fréttir um að sex ungum stúlkum væri nánast haldið föngnum af söngvaranum. 

Stuðst var við frásagnir frá fjórum fyrrverandi starfsmönnum söngvarans sem sögðu hann stýra lífi þeirra; hvað þær borðuðu, hvernig þær klæddust  og hvar þær svæfu.

Heimildarmyndaþáttaröðin Surviving R. Kelly var síðan kornið sem fyllti mælinn. Hún varpaði enn frekara ljósi á hvernig tónlistarmanninum tókst að tæla til sín táningsstúlkur og brjóta gegn þeim. Meira en 20 kærur voru lagðar fram gegn söngvaranum eftir sýningu myndarinnar. 

Ákærður fyrir kynferðisbrot og mútur

R. Kelly hefur nú setið í gæsluvarðhaldi í nærri tvö ár eftir að dómari hafnaði beiðni hans um lausn gegn tryggingu. „Ef R. Kelly var fyrir stúlkur á skólaaldri árið 1999 þá er hann fyrir stúlkur á skólaaldri núna,“ sagði saksóknari þegar hann lagðist gegn beiðni söngvarans. 

R. Kelly er ákærður fyrir kynferðisbrot, peningaþvætti og mútur.  Saksóknarar hafa undirbúið málið líkt og gert er gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi. Enda er litið svo á að brot Kellys hafi verið þaulskipulögð með fulltingi umboðsmanna og fleira fólks í nánasta starfsliði Kellys.

Einnig er ætlunin að kviðdómurinn heyri vitnisburð fjölda fólks vegna brota sem Kelly er sakaður um að hafa framið á árabilinu 1991 til 2018 en ekki er ákært fyrir. 

Nýju ljósi varpað á hjónaband Kelly og Aaliyuh

 

 „Réttarhöldin snúast um rándýr,“ sagði saksóknarinn Maria Cruz Melendez í upphafsræðu sinni í dag.  Í umfjöllun New York Times kemur fram að skömmu áður en réttarhöldin hófust fékk Melendez leyfi hjá dómara til að leggja fram gögn um kynferðislegt ofbeldi sem nær aftur til ársins 1991. 

Þessi gögn varpa meðal annars nýju ljósi á hjónaband hans og söngkonunnar Aaliyuh sem var á hraðri uppleið þegar hún lést í flugslysi árið 2001. Hún og R. Kelly gerðu saman fyrstu plötu hennar;  Age Ain't Nothing But A Number  og hún átti síðar eftir að leika í hasarmyndinni Romeo Must Die þar sem heyra mátti ofursmellinn Try Again.

Sex árum áður höfðu hún og  R. Kelly gengið í hjónaband, hún þá aðeins 15 ára gömul. Melendez sagði í upphafsræðu sinni í dag að hjónabandið hefði verið eina von söngvarans til að komast hjá málsókn.  

Aðstoðarmaður R. Kelly hafði skömmu áður tjáð honum að Aaliyah væri möguleg ólétt og söngvarinn vissi að spjótin myndu beinast að honum.  „Hann flaug til Chicago, hitti hana og lét til skara skríða,“ sagði Melendez. 

Embættismanni í Illinois var mútað til að falsa skilríki þar sem Aaliyah var sögð vera 18 ára og þau gengu í hjónaband á hótelsvítu.  „Hann lét sig síðan hverfa og hélt áfram með tónleikaferð sína.“  R. Kelly hefur viðurkennt við vitnaleiðslur að hann hafi haft samræði við Aaliyuh þegar hún var undir lögaldri. Hún tjáði sig aldrei um samband sitt við söngvarann.

Segir konurnar vera sára aðdáendur

Á vef BBC kemur fram að verjendur R. Kelly ætli að halda því fram konurnar sem saki hann um brotin sé aðdáendur í sárum og að kynlífið hafi verið með samþykki þeirra. 

Honum hefur þó gengið erfitt að halda verjendateymi sínu saman. Tveir sögðu sig frá málinu skömmu áður en réttarhöldin hófust þar sem þeir sögðu ómögulegt að vinna með þeim lögmönnum sem Kelly hafði ráðið.

Reiknað er með að réttarhöldin standi í rúman mánuð.