Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enginn verði útundan í nýrri menningarstefnu

Mynd: Reykjavíkurborg / RÚV

Enginn verði útundan í nýrri menningarstefnu

18.08.2021 - 13:37

Höfundar

Drög að nýrri menningarstefnu Reykjavíkurborgar liggja fyrir og hafa borgarbúar haft möguleika á að hafa áhrif á stefnuna. „Það er mikil áhersla lögð á að það sé aðgengi fyrir alla og að sé enginn útilokaður,“ segir Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. „Það er enginn skilinn útundan og það eiga allir jafnan rétt á að taka þátt í listsköpun og njóta hennar.“

Unnið hefur verið að nýrri menningarstefnu fyrir Reykjavík síðan í nóvember 2020. Nýja stefnan á að gilda til ársins 2030 og hefur að síðustu verið leitað eftir umsögnum borgarbúa um drögin. Þau liggja á vef Reykjavíkurborgar en frestur til að skila inn umsögnum er til 20. ágúst.

Í stefnunni eru línur lagðar um hvert skuli stefna og hvað eigi að leggja áherslu á til lengri tíma í lista- og menningarlífi borgarinnar. Í drögunum segir að markmiðið sé að árið 2030 hafi allir íbúar jöfn tækifæri til að njóta lista og menningar, bæði sem þátttakendur í listsköpun og sem neytendur lista. Menningarlíf borgarinnar skuli ekki vera einsleitt heldur endurspegla fjölbreytt mannlíf.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar sagði frá nýju stefnunni á Morgunvaktinni á Rás 1. „Maður getur spurt sig, af hverju að setja menningarstefnu? Svarið við því er að það er betra að hafa stefnu en að vera stefnulaus,“ segir hann. Árið 2030 er ekki handan við hornið í hugum flestra en reynslan segi honum að tíminn sé fljótur að líða og því full ástæða til að marka stefnu til svo langs tíma.

Leitað til jaðarhópa

Farið var í viðamikið samráðsferli, sem hófst í desember á síðasta ári og teygði sig inn á nýtt ár, þar sem talsmenn frá hinum ýmsu fagfélögum listamanna og forstöðumenn menningarstofnana voru kallaðir að borðinu. „Það væri lítið gagn að svona plaggi ef þetta væri skipun að ofan, eða tilmæli að ofan, það gengur ekki. Þetta verður í rauninni að koma úr grasrótinni,“ segir Hjálmar. Einnig var leitað til hópa sem geta átt á hættu að verða jaðarsettir eða orðið útundan í menningarlífi borgarinnar. Nefnir hann ungmenni, fatlaða listamenn og listamenn og unnendur lista sem eru af erlendu bergi brotnir sem dæmi.

„Það var lögð áhersla að ná til þessara hópa. Það má orða það þannig að stefna af þessu tagi, sem er unnin með þessum hætti, er sáttmáli um það hvert ber að stefna. Hún kemur að gagni bæði fyrir borgina og þá sem eru að stýra menningarstofnunum borgarinnar. Þá er búið að leggja ákveðna línu um hvað ber að leggja áherslu á. Eins fyrir listamenn og samtök listamanna og listunnendur líka, þá geta þeir veitt stjórnvöldum ákveðið aðhald.“

Jafnt aðgengi fyrir alla

Í drögum að menningarstefnunni er að finna nýlegt hugtak, það er inngilding, sem er þýðing á enska orðinu inclusion. Í drögunum segir að inngilding feli í sér að fólki sem annars gæti verið útilokað eða jaðarsett frá tækifærum eða úrræðum sé tryggður aðgangur.

Það eru tveir rauðir þræðir í nýju stefnunni, segir Hjálmar. „Annars vegar er það aðgengið, það er mikil áhersla lögð á að það sé aðgengi fyrir alla og það sé enginn útilokaður. Það er enginn skilinn útundan og það eiga allir jafnan rétt á að taka þátt í listsköpun og njóta hennar. Það er oft haft á orði en engu að síður hefur tilhneigingin verið sú að það verða til jaðarhópar, ég nefni fatlaða listamenn, fólk af erlendu bergi brotið og fleira. Það er mikil áhersla á að ná til þessara hópa, að í öllum hverfum borgarinnar sé deigla menningar og listsköpunar, þar sem sérkenni hvers hverfis fær að njóta sín, þannig að þetta breiðist um alla borgina og nær til allra einstaklinga.“

Til lítils ef borgin er ekki aðlaðandi staður fyrir listamenn

Annar þráðurinn er áhersla á að Reykjavík sé góð borg fyrir listamenn að búa og starfa í. „Þú getur verið með háleitar yfirlýsingar um mikilvægi menningar og listsköpunar en það kemur fyrir lítið ef borgin er ekki aðlaðandi staður fyrir listamenn.“

Í drögunum er einnig stuttur en mikilvægur kafli sem ber yfirskriftina Listin listarinnar vegna. „Þegar talað er um listina fyrir listina, á það eingöngu við það að listin er sjálfstæð,“ segir Hjálmar. „Hún hefur gildi í sjálfri sér, hún þjónar engum.  Hún getur verið ögrandi og erfið og upplífgandi og skemmtileg og allt þar á milli. En það er mjög mikilvægt að virða þetta sjálfstæði listarinnar og það séu engin yfirvöld að skipta sér af því.“

Hann lítur svo á að menning sé félagslegt lím í borgarlandslaginu til að ná ólíkum hópum saman. „Menning og listsköpun er hreyfiafl í samfélaginu. Það er rétt að hafa í huga að listamenn taka sig á vissan hátt út fyrir hin samfélagslegu ferli. Þeir eru ekki beinir þátttakendur í framleiðslu- eða umönnunarferlinu, heldur taka þeir sig út úr þessu og rýna utan frá. Það er svo mikilvægt að einhver sé í þessu hlutverki, taka sig aðeins út úr, kannski aðeins eins og vísindamenn gera, og skerpa vitund okkar og skynjun á okkar eigin lífi og samfélagi. Þetta er forsenda allrar þróunar. Menning og listir hafa gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.“

Rætt var við Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúa og formann menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, á Morgunvaktinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

Skapandi greinar eru ört vaxandi svið samfélagsins

Tónlist

Skapandi Ísland blæs til sóknar