Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dixie stækkar enn og hlýir vindar kynda nýja elda

Scorched vehicles destroyed by the Caldor fire rest on Evergreen Drive in Grizzly Flats, Calif., on Tuesday, Aug. 17, 2021. (AP Photo/Ethan Swope)
Þessir bílar urðu Caldor-eldinum að bráð, þegar hann æddi í gegnum bæinn Grizzly Flats Mynd: AP
Dixie-eldurinn mikli, næst-stærsti skógareldur sem sögur fara af í Kaliforníu, heldur áfram að breiða úr sér og nýir og skæðir skógareldar halda áfram að gjósa upp í ríkinu, þar sem veðrið gerir slökkviliðsmönnum afar erfitt um vik þessa dagana. Orkufyrirtæki hafa tekið strauminn af þúsundum heimila í varúðarskyni.

 

Rauð viðvörun vegna eldhættu

Bandaríska veðurstofan sendi frá sér rauða viðvörun í gær vegna kjöraðstæðna fyrir gróðurelda í nokkrum vesturríkjum Bandaríkjanna. Þurrir, hlýir vindar, um 18 metrar á sekúndu, léku um þessi ríki í gær og munu gera það áfram í dag. Þeir sjá til þess að eldar sem kvikna á annað borð í skraufaþurrum gróðrinum breiðast út með ógnarhraða svo vart verður við ráðið.

Einn slíkur kviknaði í Kaliforníu um helgina og fékk nafnið Caldor. Hann fór hægt af stað en sótti mjög í sig veðrið í gær þegar hann fimmfaldaðist að stærð, fór úr tæpum 25 ferkílómetrum í ríflega 120, brenndi fjölda húsa til grunna í bænum Grizzly Flats og hrakti þúsundir bæjarbúa á flótta.

Sá stóri stækkar enn

Sá stóri, Dixie-eldurinn, blés líka út í gær og hefur sviðið rúma 2.500 ferkílómetra skógar og gróðurlendis og er nú einungis um 10 kílómetra frá bænum Susanville, þar sem 18.000 manns búa. Slökkviliðið telur sig hafa tök á tæplega þriðjungi þessa ógnarmikla elds, sem að líkindum kviknaði út frá háspennulínu sem slitnaði.

Rekstraraðili þeirrar línu, Pacific Gas & Electric, tók í gær rafmagnið af 51.000 viðskiptavinum sínum í 18 sýslum í Norður-Kaliforníu, til að tryggja að sú saga endurtæki sig ekki í þeim hættulegu aðstæðum sem þar eru uppi í dag.