Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Átök um covid gætu harðnað

18.08.2021 - 11:38
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Eiríkur Bergmann stjórnmálfræðingur segir að fram að þessu hafi farsóttin tekið yfir alla þjóðmálaumræðuna. Pólitík hennar hafi ekki alveg komið upp á yfirborðið. Ekki hafi verið mikil átök um hana en þau gætu haðnað þegar nær dregur kosningum. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að Vg undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur sé í sömu stöðu og Framsóknarflokkurinn var lengst af, að geta spilað til hægri og vinstri.

Kosningabaráttan fer hægt af stað

Þótt aðeins séu rúmar fimm vikur uns landsmenn ganga að kjörborðinu hefur lítið borið á kosningabaráttu og hver hin eiginlegu kosningamál verði. Stjórnmálafræðingarnir Stefanía Óskarsdóttir og Eiríkur Bergmann ræddu stöðuna í stjórnmálum í aðdraganda alþingiskosninga sem verða 25. september.

Stefanía segir að ríkt hafi nokkuð mikil sátt um störf ríkisstjórnarinnar. Það sjáist meðal annars í mælingum á stuðningi við ríkisstjórnina. Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups kemur fram að stuðningur við ríkisstjórninni sé yfir 57%.

„Stjórnarandstaðan hefur ekki náð sér á flug með gagnrýni á störf ríkisstjórnarinnar. Hún er þó að reyna að finna einhver mál eða veikan höggstað á ríkisstjórninni. Svo er annað að vegna covid hefur flokksstarf kannski verið í hægagangi í mjög mörgum flokkum. Það er verið að fresta  t.d. landsfundi Sjálfstæðisflokksins og landsþing eru í smærri sniðum en áður,“ segir Stefanía. Hún bendir líka á að dagskrárvaldið sé orðið dálítið dreift í samfélaginu. „Hérna áður fyrr voru það helst blöðin og ríkisfjölmiðlarnir sem settu mál á dagskrá. Núna er fólk með svo fjölbreyttan aðgang að upplýsingum. Fólk er ekki að lesa sömu miðlana eða að hlusta á sömu fréttirnar. Þannig að það er svolítið erfitt fyrir stjórnmálaflokkana að ná samtali við kjósendur í gegnum fjölmiðlana.“

 Eiríkur bendir á að við séu enn inni í hefðbundnum sumarleyfistíma og að fólk sé nú að koma úr sumarleyfum. „Svo hefur þessi farsótt tekið yfir alla þjóðmálaumræðu í landinu undanfarið. Pólitík hennar er kannski ekki alveg komin upp á yfirborðið. Það hafa ekki verið mikil átök um þau málefni en þau kunna vissulega að harðna,“ segir Eiríkur. Hann tekur undir að að breytingar hafi orðið í þjóðfélaginu og á miðluninni. „Svo sjáum við það að fylgi er miklu lausara í reipunum heldur en það var áður. Það er miklu meira um það að kjósendur velji annan flokk í kosningum heldur en þeir kusu síðast. Þannig að við erum að sjá miklu hraðari umskiptingar í fylgistölum. Við erum líka að sjá að það er miklu örar skipt um ríkisstjórnir í vestrænum þjóðfélögum heldur en áður. Þannig að það er mjög margt sem að spilar saman. Þessi hefðbundna liðsskipting, sem við vorum vön í stjórnvöldum á 20 öldinni, er ekki sú sama og í dag.“

Stjórnarsamstarf ekki augljóst

Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups heldur ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vg velli og fengi 34 þingmenn. En mun þessi ríkisstjórn halda áfram? Eiríkur segir að það sé ekkert augljós í þeim efnum. Bæði hann og Stefanía segja að Katrín Jakobsdóttir sé í lykilstöðu „Helmingur kjósenda Vinstri grænna er á móti því að halda áfram í þessari ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn eru eflaust miklu meira áfram um að halda samstarfinu áfram heldur en Vinstri græn. Þannig að það er spurning um hvaða aðrir valkostir birtast okkur eftir kosningarnar sem ráða því auðvitað hvort að Vg færir sig í aðra átt. Staðan er eiginlega orðin sú, sýnist mér núna, að það er einkum og sér í lagi Katrín Jakobsdóttir sem getur gefið einhvern ádrátt um það hvernig næsta ríkisstjórn verður skipuð,“ segir Eiríkur.

Stefanía segir að Vg undir stjórn Katrínar sé á sama stað og Framsóknarflokkurinn var lengst af í okkar flokkakerfi, að geta spilað bæði til hægri og vinstri. „Það getur verið varasamt fyrir Vg að gefa út eindregna vinstrilínu því þá eiga þau á hættu að miðjufólk sem er að hugsa um að kjósa Vg út af Katrínu hugsi sem svo að það sé öruggara að kjósa Framsóknarflokkinn varðandi það að styðja við áframhaldandi samstarf þessara þriggja flokka sem fólki líkar vel við að meðaltali,“ segir Stefanía.

Hlusta má á viðtalið við Stefaníu og Eirík í spilaranum hér að ofan.