Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Asraf Ghani dvelur í Abu Dhabi af mannúðarástæðum

epa07623708 Afghan president Mohammad Ashraf Ghani talks with journalists after Eid al-Fitr prayers at the presidential palace in Kabul, Afghanistan, 04 June 2019. Muslims around the world are celebrating Eid al-Fitr, the three day festival marking the end of the Muslim holy fasting month of Ramadan. Eid al-Fitr is one of the two major holidays in Islam.  EPA-EFE/JAWAD JALALI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Asraf Ghani, forseti Afghanistan, heldur til í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Forsetinn flúði land skömmu áður en Talibanar hertóku Kabúl höfuðborg Afganistan á sunnudaginn var.

Í stuttri yfirlýsingu frá stjórnvöldum í furstadæmunum segir að forsetinn og fjölskylda hans dvelji þar af mannúðarástæðum.

Mjög hafði verið þrýst á Ghani að segja af sér meðan á hraðri leiftursókn Talibana um landið stóð. Amrullah Saleh varaforseti yfirgaf Afganistan á sama tíma og forsetinn. 

Ghani sagði í færslu á Facebook að hann hefði yfirgefið landið til að koma í veg fyrir blóðbað. Honum var þá ljóst að Talibanar hefðu haft betur i viðureigninni við stjórnarherinn. 

Ekki var vitað hvar forsetinn er niðurkominn fyrr en nú. Álitið var að hann hefði flúið til nágrannaríkjanna Tsasikistan, Úsbekistan eða til Óman. 

Sameinuðu arabísku furstadæmin voru ein þriggja ríkja sem viðurkenndu stjórn Talibana í Afganistan á árunum 1996 til 2001, hin voru Pakistan og Sádi Arabía. Asraf Ghani er ekki fyrsti þjóðarleiðtoginn sem velt er úr sessi til að leita skjóls í furstadæmunum.

Jóhann Karl Spánarkonungur hélt þangað í sjálfskipaða útlegð í ágúst síðastliðnum vegna spillingarrannsóknar og pakistanski stjórnarandstöðuleiðtoginn Benazir Bhutto átti þar skjól um átta ára skeið. Hún var myrt í heimalandi sínu árið 2007.