Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þetta voru mjög skrýtnir dagar“

17.08.2021 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyri.is - RÚV
Fimm hafa greinst með kórónuveiruna í Grímsey undanfarna daga með þeim afleiðingum að nær allir fjörutíu íbúar eyjunnar fóru í sóttkví. Kona sem býr í eynni segir ástandið hafa verið sérstakt en ekki var hægt að þjónusta þá ferðamenn sem heimsóttu Grímsey.

Læknir með örvunarskammta skimaði í leiðinni

Þann fyrsta júní fóru starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands út í Grímsey og bólusettu alla þá sem áttu eftir að fá bólusetningu með bóluefni Janssen. Það var svo í síðustu viku sem veiran greindist í tveimur íbúum. Karen Nótt Halldórsdóttir, íbúum í Grímsey, segir eyjuna hafa lamast í nokkra daga eftir að smitin komu upp. „Það var nú eiginlega bara vegna þess að það kemur hérna læknir á svona þriggja vikna fresti og í það skipti kom hann með örvunarskammtinn fyrir okkur sem fengum Janssen og kom með skimunargræjur í leiðinni. Það kemur þá í ljós að þessir tveir sem voru með einkenni voru smitaðir af covid,“ segir Karen Nótt. 

„Það þurfti að loka veitingastaðnum og búðinni“

Fjörutíu manns eru búsettir í Grímsey og mikill samgangur er meðal íbúa. Því varð ljóst að nær allir eyjaskeggjar þyrftu að fara í sóttkví eftir að smitið kom upp. „Það þurfti að loka veitingastaðnum og búðinni og þetta voru mjög skrýtnir dagar. Þetta var mjög sérstakt ástand.“

En hvernig gekk að þjónusta ferðamenn og svona á meðan á þessu stóð?

„Það var nú eiginlega bara ekki hægt. Þeir sem komu með ferjunni eða skemmtiferðaskipunum, það var í rauninni ekki hægt að halda neinni þannig þjónustu opinni sko.“

Svo virðist sem smitið hafi ekki dreifst frekar og margir losna úr sóttkví nú í byrjun viku. Því ætti lífið að geta farið aftur í sinn vanagang í Grímsey.