Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Svartsýnustu spár ferðaþjónustunnar ekki ræst

Mynd með færslu
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Mynd: RÚV
Svartsýnustu spár ferðaþjónustunnar um áhrif þess að Ísland yrði flokkað sem rautt land á sóttvarnakortum hafa ekki ræst. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að afleiðingarnar hefðu orðið mun harkalegri ef þetta hefði gerst í vor.

 „Við höfum engar nákvæmar mælingar á straumnum, fyrirspurnum eða bókunum en heyrum frá félagsmönnum okkar að þetta hefur ekki haft þau hrikalegu áhrif sem við bjuggumst við. Þó er þetta að hafa einhver áhrif,“ 
sagði Bjarnheiður Hallsdóttir í samtali við fréttastofu í dag.

Bjarnheiður segir áhrifanna gæta í afbókunum hópa, einkum frá Bandaríkjunum. Þá hafi hægst á fyrirspurnum og bókunum á síðustu stundu sem voru áberandi fyrr í sumar. Einnig gæti áhrifanna hjá fyrirtækjum sem selji Íslendingum ferðir til útlanda.

Fyrr í sumar hafði ferðaþjónustan miklar áhyggjur og taldi Bjarnheiður að það hefði svakalegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna ef Ísland yrði rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Ísland hefur nú verið flokkað rautt frá 5. ágúst

„Þessar svartsýnustu spár hafa ekki gengið eftir enda, hafa litakóðunarkefi tapað gildi sínu vegna bólusetninga og minni veikinda af völdum veirunnar. Hefði þetta orðið í vor hefðu afleiðingarnar orðið miklu harkalegri.“

Bjarnheiður segir ferðaþjónustuna vona það besta.

„Við vitum að ferðaviljnn er mikill, eftirspurnin er þarna úti.  Við bara krossum fingur og vonumst til þess að þetta fari allt að komast á réttan kjöl aftur,“ segir Bjarnheiður.
 

 

Andri Magnús Eysteinsson