Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Slökkvilið berst við skógarelda á Algarve í Portúgal

17.08.2021 - 10:12
epaselect epa09411566 Firefighters work against a forest fire in Rubia, Ourense, Galicia, northern Spain, 12 August 2021. Over 20 hectares have burned on a fire that remains out of control.  EPA-EFE/BRAIS LORENZO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Hundruð slökkviliðsmanna berjast nú við skógarelda sem kviknuðu á ferðamannslóðum í Algarve í suðurhluta Portúgals í gær.

Um það bil sextíu hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Eldarnir kviknuðu í gærmorgun en hratt gekk að slökkva þá. Síðdegis í gær blossaði eldurinn svo upp aftur og þekur nú um 30 þúsund ferkílómetra skógivaxins lands meðfram ströndinni.

Eldurinn breiðist hratt út samkvæmt upplýsingum almannavarna á svæðinu. Einn slökkviliðsmaður var fluttur á sjúkrahús með brunasár og tveir með reykeitrun. Vegna mikils hita hefur viðvörun vegna hættu á skógareldi verið framlengd um tvo sólarhringa í Portúgal.

Mikil hitabylgja gengur nú yfir landið ásamt Spáni, Ítalíu, Grikklandi, Tyrklandi og Alsír. Hörð glíma hefur verið við skógar- og gróðurelda þar í löndum sem hafa valdið talsverðu manntjóni. Um 750 slökkviliðsmenn eru nú að störfum við að ráða niðurlögum skógarelda í sunnanverðu Frakklandi.