Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óttast að flakið ryðgi í sundur

17.08.2021 - 10:30
Mynd: Hlynur Vestmar Oddsson / RÚV
Enn lekur olía úr flaki El Grillo í Seyðisfirði þrátt fyrir umfangsmiklar og dýrar aðgerðir í fyrrasumar til að koma í veg fyrir leka. Talið er að enn séu 10-15 tonn af olíu í skipinu.

„Megum ekki bregðast náttúrunni“

Olía hefur lekið með hléum í meira en hálfa öld úr breska olíubirgðaskipinu El Grillo, sem hvílt hefur á botni Seyðisfjarðar síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Í fyrravor kom upp talsverður olíuleki sem rakinn var til tæringar í olíutanki. Steypt var fyrir opið en nú er enn farið að leka úr skipinu.

Davíð Kristinsson, sem býr á Seyðisfirði, segir að það hafi verið mikil olía í firðinum. „Þó að náttúran hafi brugðist okkur hér í desember þá megum við ekki bregðast henni. Við þurfum að bregðast við. Það er búið að vera að reyna að lappa upp á götin. Hugmyndirnar voru góðar en framkvæmdin hefur því miður ekki borið árangur.“

Áhyggjur af áhrifunum á lífríkið

Hitinn í sumar hefur valdið því að olían leitar upp á yfirborðið og er mjög áberandi. Það er mikil olíubrák í firðinum öllum og upp í fjörur. Seyðfirðingar hafa áhyggjur af áhrifum olíunnar á lífríkið og eins á uppbyggingu í firðinum.

„Það eru framtíðarhorfur með fjörðinn, það er verið að pæla í fiskeldi og annað og ég get ekki séð að það fúnkeri í olíubornum firði. Ég myndi persónulega ekki velja að vera með fiskeldi hér í firðinum,“ segir Davíð.

Þarf að vera framtíðarlausn

Davíð segir Seyðfirðinga óttast að á endanum ryðgi flakið í sundur og olían komi öll upp á yfirborðið. Ljóst er að talsvert er enn af olíu í skipinu. „Þannig að það þýðir ekki lengur að setja plástur á þetta. Því miður þarf að fara í stórtækar aðgerðir og finna út hver á skipið og ná því upp. Þetta er ekki boðlegt fyrir fjörðinn okkar eða náttúruna,“ segir Davíð.