Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Geta átt rétt á upplýsingum um bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forstjóri Persónuverndar segir vinnuveitendur geti átt rétt á að fá upplýsingar um hvort starfsmenn eru bólusettir. En það fari þó alveg eftir eðli starfseminnar og þurfi að vega og meta í hverju tilfelli. Þetta geti til dæmis átt við þá sem vinni með elsta aldurshópnum. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum í gær sagði að vinnuveitendur geti gert þá kröfu að starfsfólk sé bólusett til dæmis það sem vinnur með viðkvæmum hópum. Þessi spurning hefur komið upp vegna þess að nú eru skólar að hefjast og allir hafa átt kost á bólusetningu.

Á reglulegum fundi starfsfólks Embættis landlæknis í morgun með meðal annars fulltrúum hjúkrunarheimila og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar var meðal annars rætt hvort vinnuveitendur gætu farið fram á upplýsingar um hvort starfsmenn væru bólusettir.

Persónuvernd hefur frá því faraldurinn hófst fylgst með vinnslu persónuupplýsinga og Covid eins og sjá má á personuvernd.is. 

„Það getur vissulega verið til staðar þannig starfsemi að hún réttlæti kröfu um að það sé framvísað upplýsingum um bólusetningu. Ég tek sem dæmi þá sem eru að umgangast viðkvæmasta hópinn eins og elsta fólkið sem hér býr. Önnur dæmi eru til,“ segir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar.

Einhverjir myndu þá hugsa að upplýsingar um bólusetningu séu viðkvæmar persónuupplýsingar og því geti vinnuveitandi ekki fengið að vita um þær.    
  
„Það er nú þegar þannig í lögum að þegar er ákveðið að sumir einstaklingar eða sumar stéttir þurfa að framvísa ákveðnum upplýsingum um heilsu og heilbrigði. Útgangspunkturinn er þessi; er nauðsyn að fá þessar upplýsingar út af starfseminni til þess að vernda þá meiri hagsmuni fyrir minni.“

Fréttin hefur verið uppfærð.