Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samfélagsmiðlahegðun skoðuð áður en skotvopnaleyfi fæst

Armed police at the scene of an incident on London Bridge in central London following a police incident, Friday, Nov. 29, 2019. British police said Friday they were dealing with an incident on London Bridge, and witnesses have reported hearing gunshots.  The Metropolitan Police force tweeted that officers were “in the early stages of dealing with an incident at London Bridge.” (Dominic Lipinski/PA via AP)
Mynd úr safni. Mynd: AP - PA
Innanríkisráðuneyti Bretlands fer nú fram á að hegðun á samfélagsmiðlum verði grandskoðuð hjá þeim sem sækja um skotvopnaleyfi. Þetta kemur í kjölfar mannskæðustu fjöldaskotárásar í landinu í heilan áratug.

Samfélagsmiðlahegðun hins 22 ára Jake Davison sem myrti fimm í Plymouth á Suður-Englandi á fimmtudag leiðir í ljós mikið kvenhatur, öfgafullar hægri skoðanir ásamt miklum áhuga á skotvopnum og ofbeldisfullum tölvuleikjum. 

Löggæsluyfirvöld á heimaslóðum Davison liggja nú undir miklu ámæli fyrir að hafa endurnýjað skotvopnaleyfi hans í júlí. Hann var áður sviptur leyfinu vegna ásakana um líkamsárás.

Nú hyggjast bresk stjórnvöld gefa út leiðbeiningar varðandi skotvopnaumsóknir fyrir öll 43 lögregluumdæmi á Englandi og í Wales. 

Eins sé afar mikilvægt að kanna hvort yfirfara þurfi eldri umsóknir með sama hætti. Það auki traust almennings á að allar umsóknir séu skoðaðar gaumgæfilega og frá mörgum hliðum.

Fátítt er að skotvopn komi við sögu glæpa á Bretlandseyjum en skammbyssueign er nær alveg bönnuð, en skilyrði til vopnaeignar eru ströng. 

Hægt er að fá leyfi fyrir rifflum og haglabyssum eftir að bakgrunnur umsækjanda er kannaður rækilega auk þess sem meðmæli þurfa að fylgja og læknisfræðilegt mat á andlegri heilsu.

Nú bætist rannsókn á hegðun á samfélagsmiðlum við. Davison varð móður sinni, þriggja ára barni og þremur öðrum að bana á fimmtudaginn var. Mínútuþögn ríkti í Plymouth klukkan ellefu í morgun til að minnast þeirra látnu.