Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fyrrverandi forseti tekur að sér valdaskiptin

16.08.2021 - 04:49
epa07881672 Former President of the Islamic Republic of Afghanistan Hamid Karzai (C) attends a memorial service for French former President Jacques Chirac, at the Church of Saint-Sulpice in Paris, France, 30 September 2019. Jacques Chirac died on 26 September in Paris, aged 86. The 30th September 2019 has been declared a day of national mourning in France.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Hamid Karzai, fyrrverandi forseti Afganistans, segist vera einn þriggja manna sem mynda skipulagsnefnd sem á að sjá um valdaskiptin. Auk hans eru Abdullah Abdullah, aðalsamningamaður Afgana í friðarviðræðunum við talibana, og fyrrum stríðsherrann Gulbuddin Hekmatyar.

Karzai óskaði eftir því á Twitter að stjórnarherinn og Talibanar einblíni á að vernda afgönsku þjóðina. 

Fréttastofa BBC hefur eftir Karzai að forsetinn Ashraf Ghani hafi skilið eftir tómarúm í stjórn landsins með því að flýja. Um leið og hann frétti af flóttanum hafði Karzai samband við fyrrverandi leiðtoga til að leita leiða til að koma í veg fyrir algjöra ringulreið. Hann segist jafnframt vonast til þess að vilji þjóðarinnar stjórni því hverjir verði næst við völd í Afganistan.

Nærri sjötíu ríki sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem talibanar eru hvattir til þess að leyfa Afgönum að yfirgefa landið. Þeir sem fari með völd í Afganistan beri ábyrgð á því að vernda mannslíf, segir Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Bandaríkjanna. Allir starfsmenn bandaríska sendiráðsins eru nú komnir á flugvöllinn í Kabúl, og hefur bandaríski fáninn verið dreginn niður. 

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, greindi fréttamönnum frá því í nótt að Bandaríkjaher hafi náð að tryggja öryggi flugvallarsvæðisins. 
Vestræn ríki keppast nú við að koma starfsmönnum sendiráða sinna í Afganistan frá landinu.